Mál á dagskrá

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 10:33:57 (7422)

2002-04-10 10:33:57# 127. lþ. 116.91 fundur 495#B mál á dagskrá# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 127. lþ.

[10:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það eigi við undir liðnum umræður um störf þingsins að vekja athygli á því hvernig hér er staðið að málum. Dagskráin eins og hún er samansett vekur dag frá degi æ meiri undrun.

Nú á að bjóða þinginu upp á að taka glóðvolg á dagskrá a.m.k. tvö stórmál sem hér var dreift í ljósriti síðdegis í gær, þ.e. um Umhverfisstofnun, um gerbreytingu, umbyltingu á öllu stjórnkerfi umhverfismála, og um 38. dagskrármál sem hv. síðasti ræðumaður gerði að umtalsefni. Þar er ekki lítið undir lagt þegar taka á til við að veita eins og á einni kvöldstund 20 milljarða ríkisábyrgð.

Mér telst svo til, herra forseti, að með deginum í dag að telja, miðað við þá breytingu sem var ákveðin í gær, séu sex virkir dagar eftir af starfstíma Alþingis ætlaðir til fundahalda fyrir utan þrjá eða fjóra sem eiga að fara í nefndafundahald. Þá, herra forseti, hlýtur auðvitað að vekja mikla athygli að það er eins og menn telji ekki tiltökumál að henda inn á þingið nokkrum stórmálum á dag og ætlast til að þau séu tekin til umræðu svo gott sem undirbúningslaust.

Ég nefndi það hér í gær, herra forseti, að það er ekki tilviljun að ákveðin tímamörk eru innbyggð í þingsköpin. Þau eru sett til að þingmenn hafi eðlilegan umþóttunartíma og eðlilegan tíma til að búa sig undir umræður um stórmál, svo umræður geti farið fram á sæmilega upplýstum grundvelli og menn hafi tíma til að afla sér gagna o.s.frv. Ég leyfi mér, herra forseti, að gagnrýna að svona sé að málum staðið. Ég tel fullkomlega óeðlilegt að taka stórmál af þessu tagi til umræðu nánast undirbúningslaust, hvað þá að ætla að gera það dag eftir dag. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum, herra forseti.