Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 11:33:02 (7436)

2002-04-10 11:33:02# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[11:33]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. starfandi forsrh. segist gera ráð fyrir að þegar tímar líði muni þessi breyting leiða til hagræðis sem muni draga úr kostnaði. Má ég spyrja hæstv. starfandi forsrh.: Af hverju telur hann það? Engin rök fyrir því komu fram í máli hans.

Það liggur fyrir að hæstv. fjmrh. hefur lagt fram gögn sem sýna svart á hvítu að hans ráðuneyti gerir ekki ráð fyrir að rekstur verkefnanna sem flutt eru á tvær stofnanir kosti minna en áður. Þar að auki bætist síðan við 50 millj. kr. kostnaður vegna biðlauna og flutnings.

Ég sé ekki betur, herra forseti, en hér sé hæstv. ríkisstjórn að kasta fjármunum á glæ. Hér er farið eftir duttlungum hæstv. forsrh. sem kom hingað og færði þinginu þær fréttir að það ætti að leggja niður stofnunina af því að honum hugnuðust ekki þeir spádómar sem hún lagði fram. Þetta er ekkert annað en hrein hefndaraðgerð, herra forseti, sem mun kosta íslenska ríkið á bilinu 50--100 millj. kr.