Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 11:35:25 (7438)

2002-04-10 11:35:25# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[11:35]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Samkvæmt áliti fjmrn. kostar a.m.k. 50 millj. meira að leggja niður Þjóðhagsstofnun en að reka hana. Þá eru ótalin verkefni sem á að færa inn í ráðuneytið sem hlýtur að kalla á aukinn mannskap þar og jafnvel á að færa verkefni til einkaaðila. Þá er og ótalið það fé sem ég get ekki skilið betur en eigi að fara í að efla hagdeild ASÍ. Ég vil spyrja: Liggja fyrir útreikningar á bak við þetta, hvað það kostar að færa verkefni inn í ráðuneytin og að efla hagdeild ASÍ? Ég vil líka spyrja: Eru ekki áform um að efla aðrar hagdeildir aðila vinnumarkaðarins?

Síðan vil ég spyrja hvernig á því stendur að ekki liggur fyrir í gögnum með frv. sérálit Þórðar Friðjónssonar, minnihlutaálit sem hann skilaði. Það er mjög upplýsandi fyrir allt þetta mál. Hvers vegna fylgir ekki heldur með frv. sérálit frá Starfsmannafélagi Þjóðhagsstofnunar. Þetta eru allt mikilvæg gögn í málinu og ótækt ef verið er að halda þeim frá þinginu.