Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 11:38:54 (7441)

2002-04-10 11:38:54# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[11:38]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er afskaplega mikilvægt að hagdeildir þeirra sem starfa á hinum almenna vinnumarkaði séu öflugar, bæði að því er varðar vinnuveitendur og eins verkalýðshreyfinguna. Það fara fram mjög flóknir samningar milli þessara aðila sem eru grundvöllur alls annars í þjóðfélaginu að því er varðar gengi, verðbólgu og almennt afkomu fólksins í landinu.

Það eru sérstaklega þessir aðilar, þessar hagdeildir, sem þurfa á því að halda að hafa sem bestar upplýsingar til að geta unnið umbjóðendum sínum sem mest gagn og þjóðfélaginu í heild. Það er eðlilegt að ríkisvaldið vinni með þeim að því að þetta fari sem best fram. Ríkisstjórnin er fyrir sitt leyti tilbúin að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að þessu eins og fram hefur komið.