Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 13:31:13 (7444)

2002-04-10 13:31:13# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[13:31]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um brottfall laga um Þjóðhagsstofnun er nýtt inngrip í stjórnsýslu og verkefnastöðu efnahagsmála í landinu.

Meginhlutverk Þjóðhagsstofnunar hefur m.a. verið að færa þjóðhagsreikninga, semja þjóðhagsspár og -áætlanir, semja og birta opinberlega yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur í þeim efnum, annast hagfræðilegar athuganir og skýrslugerðir um efnahagsmál fyrir ríkisstjórn og alþjóðastofnanir á sviði efnahagsmála, láta alþingismönnum og nefndum Alþingis í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál og veita aðilum vinnumarkaðarins upplýsingar um efnahagsmál og annast fyrir þá hagfræðilegar athuganir.

Virðulegi forseti. Af þessu má sjá hversu mikilvægt það er að Þjóðhagsstofnun og það starf sem hún hefur innt af hendi á þeim vettvangi sé unnið á sjálfstæðan og óháðan hátt, slík starfsemi sé óháð öllum hagsmunasamtökum, standi óháð gagnvart framkvæmdarvaldinu og geti komið fram sem hlutlaus aðili gagnvart þeim aðilum sem þurfa að nýta sér upplýsingar hennar í starfi sínu við gerð efnahagsáætlana, við gerð og undirbúning kjarasamninga o.s.frv. Þetta hefur verið og er hið mikilvæga hlutverk Þjóðhagsstofnunar. Og eðlilega er það svo að Þjóðhagsstofnun getur komið fram með áætlanir og tölur, lagt fram forsendur og spár sem ekki hugnast þeim sem spyrja um þær hverju sinni. Það getur verið að framkvæmdarvaldinu hugnist ekki spár Þjóðhagsstofnunar ef þær ganga þvert á væntingar þess eða á það sem það vildi sjá. Það má vel vera að launþegasamtökin við gagnaöflun í undirbúningi kjarasamninga geti fengið þar gögn, upplýsingar og tölur sem þeim þyki kannski ekki henta sem best við undirbúningsgerð krafna í kjarasamningum. Sama er með Samtök atvinnulífsins. Það má vel vera að þau hafi aðra skoðun eða aðrar væntingar en slík óháð stofnun hefur komið fram með varðandi efnahagsstærðir og áætlanir í þjóðarbúskapnum. Þetta er einmitt það sem við höfum, virðulegi forseti, fengið að upplifa á hinu háa Alþingi að á haustdögum kom Þjóðhagsstofnun með aðra spá en framkvæmdarvaldinu og hæstv. forsrh. var þóknanleg. Þá var við því brugðist eins og alþjóð veit og á þann hátt sem alþjóð er þegar orðið kunnugt um hvernig stjórnarhættir eru hjá meiri hlutanum á Alþingi, hjá ríkisstjórninni, hjá oddvitum ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., að þá er bara stjórnað með tilskipunum og ef eitthvað birtist sem er óhentugt, þá skal það bara skorið af. Gildir þar einu hvort um er að ræða dóma Hæstaréttar eða spár Þjóðhagsstofnunar. Það skal allt lúta vilja og geðþótta stjórnarherranna.

Vissulega ber slíkt framferði allt merki þess að við erum að sigla inn í meiri einræðistilburði í stjórnsýslu landsins en hér hefur þekkst um áratuga skeið. Við erum að sigla inn í miklu meiri einræðistilburði og ekki bara tilburði heldur í ákveðnum þáttum hreint og klárt einræði. Það er alvarlegt mál í lýðfrjálsu landi og hjá þjóð sem vill telja sig vera einn af forgönguaðilum í baráttu fyrir auknu og sterku lýðræði.

Í því ljósi erum við að ræða þetta mál, virðulegi forseti. Við erum að ræða þetta í ljósi þeirra hörðu einræðistilburða sem við nú upplifum í stjórnsýslunni.

Hlutverk Þjóðhagsstofnunar hefur verið, eins og ég hef sagt, að veita m.a. Alþingi og alþingismönnum upplýsingar í vinnu þeirra við gerð t.d. fjárlaga sem byggjast m.a. líka á þeim efnahagsspám og efnahagsforsendum sem lagðar eru fyrir yfirstandandi tíma, næsta ár og næstu ár. Ég hef starfað í fjárln. síðan ég kom á þing og ég verð að segja, herra forseti, að vitundin um að hafa Þjóðhagsstofnun til að koma með tölur og upplýsingar við meðferð og gerð fjárlaga og við að meta stöðu efnahagsmála og til að geta spáð í hvað í vændum geti verið, vitundin af tilveru og návist Þjóðhagsstofnunar hefur skipt þar afar miklu máli því að þær tölur sem við í hv. fjárln. fáum til að vinna úr koma jú annars frá framkvæmdarvaldinu, frá fjmrn. sem fer með hina peningalegu og fjármálalegu stýringu á fjármálum ríkisins og efnahagsmálum. Það er ekki nóg, virðulegi forseti, og það hygg ég að hv. þm. Kristján Pálsson sem situr í fjárln. upplifi oft og tíðum alveg eins og sá sem hér stendur að oft eru upplýsingar sem koma frá fjmrn. eðlilega bundnar eða tengdar vilja og óskum ríkisstjórnarinnar en þurfa ekki endilega að vera í takt við þann raunveruleika sem við erum að fást við. (Gripið fram í.) Já, ég get sýnt fram á það, virðulegi forseti, og það er einmitt ágætt, virðulegi forseti, að fá þessa góðu ábendingu frá hv. þm. sem ætti einmitt að minnast þess við síðustu fjárlagagerð í haust, og það er gott að hv. þm. Kristján Pálsson skuli einmitt koma inn á það, kannski hefur hann sjálfur, hv. þm. sem situr í fjárln., gleymt því hve mikið bar á milli í spám fjmrn. og Þjóðhagsstofnunar við fjárlagagerð í haust. Ég skal aðeins rifja upp með hv. þm. (Gripið fram í.) Já. Hér stendur í þjóðhagsforsendum fjárlaga fyrir árið 2002, með leyfi forseta, ég vona að hv. þm. Kristján Pálsson fylgist með, þar spáir fjmrn. í fjárlögum að einkaneysla dragist saman um 1%, Þjóðhagsstofnun spáir 1,5% sem munar miklu í fjárlögum ríkisins. Tökum líka fjárfestingu. Þar spáir fjmrn. að fjárfesting dragist saman um 12% en Þjóðhagsstofnun spáir því að hún dragist saman um 14%.

Við skulum taka annað dæmi af innflutningi á vöru og þjónustu sem skiptir afar miklu máli í þjóðarbúskapnum, ekki síst í þeim viðskiptahalla sem við höfum verið að berjast við á undanförnum árum og hefur í rauninni ráðið efnahagslífinu hér, hinn mikli viðskiptahalli sem hefur náttúrlega speglað hina röngu efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. En þar munar heldur betur í forsendum fjmrn. annars vegar og hins vegar spám Þjóðhagsstofnunar sem setti öll fjárlögin upp í loft eftir því hvor viðmiðunin var tekin, en í spá fjmrn. stendur að innflutningur vöru og þjónustu dragist saman á þessu ári um 4,3% en Þjóðhagsstofnun spáir 7% samdrætti. Það hefur ekki svo lítið að segja bæði í mati á viðskiptahallanum, einnig í mati á tekjum ríkissjóðs sem eru svo mjög háðar innflutningsgjöldum og virðisaukaskatti, þannig að þarna bar verulega á milli. En hvers vegna ætli hafi borið þarna á milli? Jú, ríkisstjórnin og fjmrn. voru að stilla fjárlögin af til að fá þá niðurstöðutölu í fjárlögin sem þeir vildu fá. (Gripið fram í: Hvernig varð niðurstaðan?) Niðurstaðan varð sú að þeim tókst að búa það til að fjárlögin voru hér um bil á sléttu gjalda- og teknamegin með þessu fiffi. Ef þeir hefðu tekið tölu Þjóðhagsstofnunar, þá var bullandi halli á fjárlögum, og var ekki svo skemmtilegt, fannst þeim, að fara að kynna fjárlög á Alþingi með bullandi halla, þannig að fjmrn. valdi að koma með allt aðra útreikninga og allt annað mat en Þjóðhagsstofnun til þess að stemma af fjárlög sín. Hvor ætli sé nær því núna sem er að gerast? Hver er samdrátturinn orðinn? Að vísu erum við bara á miðju ári en það stefnir í að samdrátturinn á innflutningi verði ekki minni en Þjóðhagsstofnun áætlaði og enn fjarri því sem fjmrn. áætlaði.

Herra forseti. Ég get rakið fleiri svipuð dæmi. Sama gildir um þjónustuinnflutninginn. Þar bar líka gríðarlega mikið á milli, að fjmrn. var með allt aðrar tölur en Þjóðhagsstofnun. Fyrir okkur þingmenn sem erum að fjalla um þessi stóru mál og höfum engin tök á að setja okkur inn í einstaka þætti efnislega þannig að við verðum að trúa og treysta á það sem fyrir okkur er lagt, þá skiptir afar miklu máli að eiga aðgang að stofnun sem við vitum að er ekki bundin af því að framkvæma eða túlka tímabundinn vilja, áhuga eða væntingar ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Nei, virðulegi forseti, ég er ekki að væna neinn um að mistúlka tölur, heldur vinnur hver á sínum forsendum og hver eftir sínum tilskipunum einnig. Ég geri fastlega ráð fyrir að fjmrn. hafi lagt upp úr því að vinna þetta vel en engu að síður er þessi munur og það er hann sem er niðurstaðan. Ég geri ráð fyrir að báðir aðilar hafi reynt að vinna vel á sínum forsendum en þetta er samt munurinn. Önnur stofnunin er hluti af framkvæmdarvaldinu, hin stofnunin starfar sjálfstæð og óháð og á að vera ráðgefandi. Þetta er bara dæmi, af því að hér kom fram ósk úr sal frá hv. þm. Kristjáni Pálssyni að nefna dæmi um hvernig spár fjmrn. og Þjóðhagsstofnunar hefði greint á í mikilvægum atriðum við gerð fjárlaga. (GE: Það hefur aldrei verið svona mikill munur.) Aldrei verið svona mikill munur. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Gísla S. Einarssyni og sem réði algerlega niðurstöðutölum í fjárlagafrv., á fjárlögunum þegar þau voru afgreidd hvort þau væru í plús eða mínus hvað tekjur og gjöld varðaði.

Ég get, virðulegi forseti, látið hv. þingmenn fá ljósrit af þessum samanburði til að fríska þau atriði upp, hvernig þetta er. En ég ítreka að þingmenn geta ekki allir sett sig inn í einstök smáatriði eða þó þau séu stór, í mörgum málum. Þeir hafa engin tök á að setja sig inn í slíkt og eru því háðir því að taka og vinna út frá þeim tölulegu forsendum sem eru lagðar upp í hendur þeirra.

[13:45]

Víkjum í framhaldi af þessari umræðu að hugmyndinni um að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Ætlunin er að færa verkefni hennar til annarra aðila, m.a. til Seðlabankans, Hagstofunnar, fjmrn. og ASÍ. Þegar uppboðsmarkaðurinn var kynntur, þ.e. hvert ætti að dreifa þessum verkefnum og áttu þeim náttúrlega að fylgja fjármunir. Þetta er ekki sparnaðarfrv. heldur kostnaðaraukafrv. þó annað megi ráða af upphafstexta athugasemda við frv. Samkvæmt þeim á frv. að vera til hagræðingar- og sparnaðar en séu tölur fjmrn. lesnar kemur í ljós að frv. hefur í för með sér kostnaðarauka. Þar stangast fullyrðingar á. En þegar þau fóru á þennan uppboðsmarkað, þ.e. verkefnin, hver ætti að fá hræið þegar því yrði skipt upp, fjölgaði kostnaðarliðunum. ASÍ segir í frétt í Morgunblaðinu 10. apríl, með leyfi forseta:

,,Í samskiptum við Halldór Ásgrímsson yfir helgina:

Forystumenn ASÍ voru yfir alla helgina í samskiptum við Halldór Ásgrímsson, starfandi forsætisráðherra, vegna málsins og að sögn Gylfa`` --- Gylfa Arnbjörnssonar, sem er framkvæmdastjóri ASÍ --- ,,telur ASÍ sig hafa fengið fyrirheit stjórnvalda, sem geri ASÍ kleift að sinna þessum verkefnum sjálft og efla starfsemi hagdeildar samtakanna.``

Gylfi Arnbjörnsson segir enn fremur í greininni:

,,Við teljum það fagnaðarefni og mikilvægt að fá það viðurkennt í frumvarpinu að það skipti máli að verkalýðshreyfingin og hennar sjónarmið komi að umræðu um efnahagsmál og mótun efnahagsstefnunnar.``

Vissulega er það mikið fagnaðarefni og í hæsta máta eðlilegt. En að það sé gert að hluta af efnahagsstjórninni, þeir séu á launum hjá ríkinu er aftur annað mál. Enda kemur svo annað hljóð í strokkinn þegar rætt er við framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins sem segir að ekkert hafi verið við sig talað og vill líka fá hlutdeild í þessum efnahagsspám. Eiga þeir ekki fleiri eftir að koma? Hvað með Neytendasamtökin? Er ekki eðlilegt að þau fái verkefni frá ríkinu við að vinna efnahagsspár? Það skiptir afar miklu máli að þau geti unnið efnahagsspár. Mér finnst eðlilegt að Bændasamtökin fái fjármagn frá ríkinu til að taka þátt í efnahagsumræðunni. Svona mætti áfram telja.

Auðvitað er gott að sem flestir komi að efnahagsumræðunni. En það er ekki gott að þeirri hlutlausu ábyrgð sem snýr að Alþingi og þjóðinni sé komið á samtök atvinnulífsins, hvort sem það eru vinnuveitendur eða launþegar. Ábyrgðinni af því að koma hlutlausum upplýsingum um efnahagsforsendur og efnahagsstærðir til þjóðarinnar á ekki að deila milli einstakra hagsmunaaðila. Það er alveg fáránlegt. Með þeim hugmyndum sem hér er talað fyrir er í raun verið að veikja þingræðið í landinu stórkostlega og færa stjórnarfar til aukins einræðis- og tilskipunarvalds.

Fyrir Alþingi liggja tillögur frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Ögmundi Jónassyni, um endurskoðun á starfsemi og stöðu Þjóðhagsstofnunar sem miða að því að gera úttekt á starfsemi hennar og þeim verkefnum sem henni hafa verið falin sem nauðsynlegt er að slík óháð og sjálfstæð stofnun vinni að. Þar er mælt með að kannað verði hvort ekki megi færa hana undir Alþingi og styrkja hana á þeim vettvangi gagnvart Alþingi, styrkja sjálfstæði Alþingis í að meta efnahagsforsendur og þá jafnframt fjárlagagerð. Þessa nálgun tel ég miklu eðlilegri, virðulegi forseti.

Ég er líka, virðulegi forseti, með álit fulltrúa starfsmanna Þjóðhagsstofnunar á frv. til laga um að fella Þjóðhagsstofnun niður eða loka henni. Þar er með mjög sterkum röksemdum mælt gegn því, einmitt á grundvelli þessa hlutleysis sem slíkri stofnun ber að vinna samkvæmt. Slíkt hlutleysi er nauðsynlegt til að afla upplýsinga um efnahagslegar forsendur, um hvert stefnir í efnahagsmálum þannig að Alþingi og aðrir aðilar í þjóðfélaginu hafi aðgang að eins hlutlausum, öruggum og traustum upplýsingum og kostur er til að meta áherslur sínar og áætlanagerð.