Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 14:13:13 (7449)

2002-04-10 14:13:13# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[14:13]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka enn svör hæstv. starfandi forsrh. Ég er ekki að væna Seðlabankann eða aðrar stofnanir um óheilindi heldur er ég bara að velta fyrir mér þeim hagsmunum sem þeir þurfa að líta til í hvert skipti.

Ég hef áhyggjur af því ef færa á Þjóðhagsstofnun, þau störf sem þar voru, til aðila sem eru á einhvern hátt háðir, hvort sem það eru peningastofnanir, atvinnulífið eða enn annað. Ég tel að þjóðhagsspá og áætlanir eigi að vinna af sérstakri stofnun. Ég tel að hagfræðilegar athuganir og skýrslugerð eigi að vera sameiginlega í sérstakri stofnun og ég tel að við þurfum að hafa stofnun sem lætur alþingismönnum og nefndum Alþingis í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál. Ég hygg að við séum ekki ósammála, ég og hæstv. starfandi forsrh., í þessum efnum. Ég kallaði eftir því hvort einhver skilgreind hugmynd væri til um þetta en mér sýnist að menn ætli sér að flytja þessi verkefni ýmist til atvinnulífsins, aðila vinnumarkaðarins, Seðlabankans eða jafnvel treysta á það sem væri kallað óháðar peningastofnanir.