Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 14:51:58 (7452)

2002-04-10 14:51:58# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, SvH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[14:51]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hér ræða menn forsendur þess að Þjóðhagsstofnun er slegin af. Ef farið er yfir þá reynslu sem menn hafa og þekkingu á starfsemi Þjóðhagsstofnunar hefur aldrei komið fram nein bitastæð gagnrýni á starfsemi hennar. Aldrei. Hún hefur staðið ótrúlega vel í stykkinu, gegnt hlutverki sínu ámælalaust og verið óhlutdræg í umsögn sinni og álitsgerðum á hinum þýðingarmestu þjóðmálum. Hverjar eru þá forsendurnar fyrir því að hún er lögð niður? Þær eru ekki til nema geðbrigði formanns Sjálfstfl. Menn hafa verið að binda einhverjar vonir við það að Framsfl. mundi spyrna við fæti og hann hefur talað í þá veru. Aldrei hefur mér dottið það í lifandi hug. Til þess þykist ég þekkja of vel innihald þess flokks sem nú er orðinn kleppur í hala Sjálfstfl. í öllum málum.

Það á sem sagt að leggja þessa óhlutdrægu, mikilvægu stofnun af sem til að mynda hefur verið hinu háa Alþingi mjög gagnleg og þýðingarmikil í meðferð hinna mikilvægustu mála, og færa starfsemi hennar undir ráðuneyti til að mynda, og Seðlabanka svo að eitthvað sé nefnt. Greinilega er verið að færa þetta nær ríkisvaldinu sjálfu.

Menn tala um að í 1. gr. laga um Seðlabanka sé tekið fram að hann sé sjálfstæð og óháð stofnun. Þar stjórna þeir menn sem eru rækilegustu taglhnýtingar ríkisstjórnarvaldsins, Birgir Ísleifur Gunnarsson og Finnur Ingólfsson. Rækilegustu taglhnýtingar sem fyrirfinnast og halla aldrei neinu til öðruvísi en hafa vitað fyrir fram til hvers var ætlast af þeim af ríkjandi stjórnvaldi, þeim sem nú sitja. Og einhvern hluta af þessu á að færa undir vinnumarkaðinn eða öllu heldur ASÍ eins og nú standa sakir, en auðvitað hafa samtök atvinnurekenda gert vart við sig og talað um jafnræðisregluna. Er trúlegt að álitsgerð frá þessum samtökum um þýðingarmestu mál, t.d. í fjármála- og efnahagskerfinu, verði talin og geti talist óhlutdræg? Það er ekki verið að væna þessa menn um óheiðarleik en þeir hljóta að álykta út frá sínum eigin hagsmunum fyrst og fremst sem þurfa ekki að fara saman við almannahag.

Þessu fylgja stóraukin útgjöld og ekkert láta menn sér það í augum vaxa. Sjálfur flutningur stofnunarinnar kostar tugi millj. króna. Glansmyndasmiðirnir sem stöðugt tala um hina miklu velferð íslenskrar þjóðar skoða ekki hug sinn um að verja fjármunum til allra sinna geðþóttaverkefna. Þeir ættu að rifja upp fyrir sér biðraðirnar hjá mæðrastyrksnefnd. Kannski er það ónotaleg mynd sem þar birtist og þá verður kannski þess að vænta að fram verði lagt frv. um að leggja hana niður til þess að fækka óþægindum, og þá Hjálparstofnun kirkjunnar. Hver veit hvaða geðþótti tekur við, og skapbrigðaframferði?

Þessi vinnubrögð sem við stöndum frammi fyrir eru ekki vinnubrögð sem hægt er að sætta sig við. Þau eru auðmýkjandi fyrir stjórnarflokkana sem ætlast er til að samþykki þessi ósköp. Þau niðurlægja þá ágætu starfsmenn sem skilað hafa verkefnum sínum með sóma í Þjóðhagsstofnun um árabil. Það er það sem upp af stendur þegar við þessi vinnubrögð er skilist af stjórnarmeirihlutanum. Nei, hér er svo langt gengið að upphaf og endir þessa máls er geðröskunarmál, nýyrði sem formaður Sjálfstfl. mun hafa fundið upp, geðröskunarmál þess manns.