Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 15:54:44 (7458)

2002-04-10 15:54:44# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[15:54]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þeir aðilar sem um þessi mál véla hafa stundum mismunandi mat á hlutunum. Má ég benda á að Þjóðhagsstofnun hefur nýlega endurskoðað spá sína um hagvöxt á þessu ári? Mig minnir að hún hafi spáð 1% minnkun þjóðarframleiðslu á þessu ári, hefur endurskoðað það núna upp í mínus 0,5 og hver veit nema það eigi enn eftir að breytast, og fjmrn. hafði ákveðna afstöðu sem var öðruvísi í haust. Þetta fórum við í gegnum í tengslum við fjárlagaumræðuna og ég hygg að spár fjmrn. hafi ekki reynst lakari en hinar. En það er ekki kjarni málsins í þessu sambandi.

Ég held að kjarni málsins sé sá að þessi vinna verður eftir sem áður unnin af færustu mönnum, hún verður unnin faglega og eins ópólitískt og við verður komið með svona málefni. Það er auðvitað alveg fráleitt að gera því skóna að einhver sérstök pólitísk stýring verði á þjóðhagsspám við það að þjóðhagslíkanið flytjist í efnahagsskrifstofu fjmrn. Ég bendi á að árið 1988, þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sat í ríkisstjórn, varð sú breyting að tekjuáætlun fjárlagafrv. var flutt frá Þjóðhagsstofnun yfir í fjmrn., 1988 þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var í ríkisstjórn, (Gripið fram í.) og ég hef ekki orðið var við að sú tekjuáætlun hafi legið undir einhverju sérstöku ámæli fyrir það að fjmrh. á hverjum tíma hafi verið að reyna að tosa hana upp, hafi verið að reyna að auka eða ýkja tekjuáætlunina. Þetta hefur verið svona í 14 ár og gengið bara nokkuð vel þrátt fyrir þá pólitísku stýringu sem formlega er á þessu vegna þess að fjmrh. er ábyrgur fyrir öllu sem gert er í ráðuneytinu eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði. Vissulega er það rétt.