Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 15:58:19 (7460)

2002-04-10 15:58:19# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[15:58]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. vísaði til þess að svipaðar hugmyndir hefðu verið uppi á árinu 1983 en þá voru ekki uppi hugmyndir, eða það var ekki samþykkt, að það ætti að vinna að því að leggja Þjóðhagsstofnun niður heldur var samþykkt að meta hvort hagkvæmt væri að fela öðrum verkefni hennar. Það var 1983. 1991, átta árum síðar, tekur ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþýðuflokks, undir forustu Davíðs Oddssonar, af skarið í þessu efni. Hún segir að skoða skuli hvort færa eigi ákveðin verkefni Þjóðhagsstofnunar, sem voru þá hefðbundin hagstofuverkefni, til Hagstofunnar en það var ákveðið tekið af skarið varðandi stöðu Þjóðhagsstofnunar og eftirfarandi sagt, árið 1991: ,,Önnur verkefni, þar með talið spár og efnahagsráðgjöf, verði áfram unnin af stofnuninni sem mun starfa í nánari tengslum við forsætisráðuneytið en verið hefur.``

Ríkisstjórnin tók þarna alveg af skarið. En ég vil nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. fjmrh. um þær spár sem hér eru hjá fjárlagaskrifstofunni, hvað þetta þýðir í útgjöldum. Talað er um að flytja þann kostnað sem fylgir Þjóðhagsstofnun, 132 millj., og skipta á milli fjmrn. og Hagstofunnar, bæta við 50 millj. vegna biðlauna og flutnings og síðan er ekki gert ráð fyrir ýmsum útgjöldum eins og að kaupa greiningarþjónustu sem ráðherra nefndi hér, verkefnum sem flytja á til hinna ýmsu ráðuneyta, sem kallar væntanlega á aukinn mannskap, og síðan þann kostnað sem hlýst af því að einhverjir peningar verða settir yfir til hagdeildar ASÍ sem aðrir aðilar á vinnumarkaðnum eru farnir að kalla eftir, t.d. Samtök atvinnulífsins, BSRB, BHMR og fleiri aðilar. Ég spyr hæstv. ráðherra: Þegar öll þessi heildarútgjöld eru skoðuð, er þá ekki nærri lagi að áætla að það verði helmingi dýrara að leggja Þjóðhagsstofnun niður en að reka hana?