Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 16:02:37 (7462)

2002-04-10 16:02:37# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[16:02]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Athyglisvert er að þegar við ræðum um aukin útgjöld vegna þessara breytinga sem hér eru á döfinni erum við á sama tíma að fjalla um það að önnur greiningarstöð, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, getur ekki sinnt hlutverki sínu og er öll í uppnámi með langa biðlista vegna þess að hún fær ekki 20 eða 30 millj. sem vantar til þess að hægt sé að halda þar uppi eðlilegri starfsemi. Út af fyrir sig er rétt hjá hæstv. ráðherra að ákveðinn upphafskostnaður er í þessu, 50 millj kr., en 132 millj. sem kostar að reka Þjóðhagsstofnun verða áfram til staðar.

Síðan spyr ég um það að verkefni sem eiga að færast til annarra ráðuneyta hljóta að kalla á aukinn mannskap. Ég spyr hæstv. ráðherra --- og það er líka talað um einkaaðila sem kosta sitt --- hver eru rökin fyrir því að bara á að veita fjármagn til hagdeildar ASÍ en ekki annarra hagdeilda aðila vinnumarkaðarins? Hver eru rökin fyrir því að eingöngu ASÍ fær viðbótarfjármagn til að reka hagdeild sína við þessar breytingar en ekki aðrir aðilar á vinnumarkaðnum?