Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 18:38:26 (7474)

2002-04-10 18:38:26# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[18:38]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. þingmanns um Seðlabanka Íslands --- gert er ráð fyrir því að Seðlabankinn geti veitt nefndum Alþingis, stjórnmálaflokkum og alþingismönnum þá þjónustu sem Þjóðhagsstofnun hefur veitt og alþingismenn geta ekki leitað til annarra með. Ég tel að Seðlabankinn hafi þá stöðu gagnvart Alþingi að það ætti ekki að vera á nokkurn hátt verra fyrir hv. þingmenn að leita eftir þjónustu þar miðað við það hvað Seðlabankinn styrkir starfsemi sína mikið á þessu sviði. Þetta hefur verið rætt við Seðlabankann og ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður taki þátt í að ræða málið við Seðlabankann þegar það kemur til umfjöllunar í nefnd.

Að því er varðar málefni starfsmanna verða þeim öllum boðin störf hjá þeim stofnunum sem verkefnin færast til. Leitast verður við að bjóða starfsmönnum að sinna svipuðum verkefnum og þeir hafa sinnt áður. Jafnframt þarf samt að hafa hliðsjón af óhjákvæmilegum breytingum sem fylgja breyttri verkefnaskipan.

Líka er rétt að taka fram að í ákvæði til bráðabirgða eru þau störf sem starfsmenn Þjóðhagsstofnunar verða ráðnir í hjá þessum stofnunum undanþegin auglýsingaskyldu starfsmannalaga en að öðru leyti fer um réttindi þeirra samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þ.e. lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.