Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 18:44:57 (7477)

2002-04-10 18:44:57# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[18:44]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. til laga um brottfall laga nr. 54/1974, um Þjóðhagsstofnun, með síðari breytingu, o.fl.

Ég vil aðeins í máli mínu, virðulegi forseti, gagnrýna hvernig málið er fram komið. Það er algerlega óásættanlegt að breytingar af þessu tagi skuli keyrðar í gegn án samráðs, t.d. við stjórnarandstöðuna. Þjóðhagsstofnun er mikilvægt tæki og hlutlaus aðili. Hún framkvæmir og vinnur undirbúningsvinnu, m.a. vegna áætlana fyrir stjórnarandstöðuna, sem allir geta treyst og það er eiginlega merkilegt að ríkisstjórnin skuli ekki hafa tekið við útréttri hendi, því að 24. mál á dagskránni er till. til þál. um endurskoðun á starfsemi og stöðu Þjóðhagsstofnunar. Hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson, leggja fram þessa till. til þál. Við erum í sjálfu sér ekki andvíg því að opinberar stofnanir séu í stöðugri endurskoðun. Hennar er stöðugt þörf en það er ekki sama hvernig að henni er staðið. Tillaga hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar Jónassonar hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að setja á fót nefnd til að gera úttekt á starfsemi Þjóðhagsstofnunar. Í nefndinni skulu sitja fulltrúar allra þingflokka, einn fulltrúi tilnefndur af starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar og einn fulltrúi forsætisráðuneytis og skal hann jafnframt vera formaður. Verkefni nefndarinnar verði, auk almennrar úttektar, að skoða verkaskiptingu milli Þjóðhagsstofnunar og annarra aðila sem vinna að einhverju leyti að svipuðum verkefnum og meta kosti þess að Þjóðhagsstofnun verði færð undir Alþingi.

Nefndin skili niðurstöðum sínum í skýrslu til Alþingis. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.``

[18:45]

Virðulegi forseti. Þess vegna er ákaflega undarlegt að standa frammi fyrir því að mál skuli keyrð inn á síðustu dögum þingsins með þeim hætti sem hæstv. ríkisstjórn ákveður að gera það án þess að hafa samráð við kóng eða prest, án þess að velta fyrir sér möguleikum sem byggjast á þessari þáltill. sem hv. þm. Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon hafa lagt fram.

Það er dálítið undarlegt að standa frammi fyrir því, lesa það í gögnum og upplifa það í umræðunni að hér er á engan hátt um neins konar hagræðingaraðgerð að ræða því fram hefur komið að það er heldur kostnaðarauki af þessum aðgerðum. Hæstv. ríkisstjórn getur því ekki skákað í skjóli kostnaðar vegna þess að við erum að tala um kostnaðarauka jafnvel upp á 50 millj. kr., a.m.k. fyrstu árin. Allt málið er sett þannig fram að um mikinn flumbrugang er að ræða. Menn hafa ekki sést fyrir í þessu máli, enda er búið að rekja aðdraganda þess þar sem hæstv. forsrh. lýsti því yfir nánast í beinni útsendinu í sjónvarpi að hann hygðist gera þessar breytingar án þess að hafa ráðfært sig að því er virðist við nokkurn aðila í stjórnarliðinu eða samstarfsflokknum, enda var það lengi vel svo að framsóknarmenn settu sig algjörlega á móti þessum breytingum.

Virðulegi forseti. Við erum andvíg svona vinnubrögðum. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum lagt fram þáltill. sem skapaði mögulegan grunn til þess að vinna faglega að þessum málum þannig að sátt væri um og að hægt væri að freista þess að stjórn og stjórnarandstaða yrðu sáttar við hugsanlegar breytingar sem hefði mátt gera á stofnuninni á grunni þessarar þáltill. sem sett var fram og er 24. mál á dagskrá þingsins nú. Eftir því sem manni sýnist og eftir því sem málum vindur fram, eru kannski ekki miklar líkur á því að þessi þáltill. verði rædd fyrir hlé vegna nefndadaga. Þó hefði verið fyllsta ástæða til þess að ræða þessi mál samhliða og koma vinnunni í annað form.

Mikið hefur verið rætt um stöðu starfsmanna Þjóðhagsstofnunar. Þeir hafa frétt af sínum vinnustað og hugsanlegri framtíð hans í fréttum. En þetta er í raun bara nýi stíllinn í sambandi við einkavæðingarstefnuna og er angi af honum. Þar er formúlan að framkalla ótta og öryggisleysi í framhaldi af því að brjóta niður opinberan rekstur. Í raun eru þær formúlur sem notaðar eru í þessu máli í mjög í svipuðum dúr og þegar menn eru með yfirlýsingar vegna einkavæðingaráforma í öðrum rekstri sem hingað til hefur verið opinber. Þetta hefur verið og er til mikils tjóns fyrir samfélagið. Þetta leiðir til rótleysis. Besta starfsfólkið notar fyrsta mögulega tækifæri til þess að fara úr opinberum rekstri og eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, þá eru þetta vinnubrögð sem við getum engan veginn verið þekkt fyrir að viðhafa á hinu háa Alþingi þegar um heilar stofnanir er að ræða.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara koma þessu að í umræðunni, greina frá því að við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði vorum búin að undirbúa þáltill. sem laut að því að endurskoða starfsemi stofnunarinnar í ljósi breyttra tíma, fara yfir í viðfangsefnin og sjá hvernig mætti raða hlutum upp á nýtt. Ég harma að tækifærið sem gafst með þeirri þáltill. skuli ekki hafa verið notað til þess að vinna faglega að málum Þjóðhagsstofnunar.