Fullgilding Stokkhólmssamnings um þrávirk lífræn efni

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 18:52:43 (7478)

2002-04-10 18:52:43# 127. lþ. 117.8 fundur 682. mál: #A fullgilding Stokkhólmssamnings um þrávirk lífræn efni# þál. 11/127, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[18:52]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um fullgildingu Stokkhólmssamnings um þrávirk lífræn efni. Þessi samningur var gerður þann 22. maí 2001.

Samningurinn tekur til takmörkunar á framleiðslu og notkun svonefndra þrávirkra lífrænna efna. Um er að ræða flokk efna sem brotna hægt niður í náttúrunni og geta borist langar leiðir með fartegundum, loft- eða hafstraumum og safnast fyrir í vistkerfum fjarri uppruna sínum. Þessi efni voru flest hver tekin í notkun um eða eftir síðari heimsstyrjöld. Þótt þessi efni hafi lítið verið notuð hér á landi eru þau vel mælanleg í íslensku umhverfi.

Það hefur verið mikið baráttumál Íslendinga á alþjóðlegum vettvangi að takmarka notkun þessara efna til þess að vernda umhverfi okkar og þá ekki síst hafið í kringum landið og þær miklu auðlindir sem eru undirstaða tilveru okkar.

Þetta mál hefur lengi verið til umfjöllunar. Íslensk stjórnvöld vöktu einnig athygli á málinu við undirbúning alþjóðlegrar aðgerðaáætlunar um varnir gegn mengun hafsins vegna mengunar frá landi sem samþykkt var í Washington 1995 og á síðasta undirbúningsfundi áætlunarinnar, sem ríkisstjórn Íslands bauð til í Reykjavík í mars 1995, undir forustu umhvrn., komst skriður á málið. Síðan enduðu þessi mál með því að samkomulagið sem hér liggur fyrir tókst. Það er mikið fagnaðarefni að Ísland skuli hafa náð þessum árangri í málinu á alþjóðavettvangi og að þessi samningur skuli liggja fyrir. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að við fullgildum hann sem fyrst og væntum við þess að aðrar þjóðir geri það sama þannig að notkun þessara efna verði minni og að stórlega dragi úr þeim því það getur skipt miklu máli í sambandi við verndun hafsins í framtíðinni og fyrir tilverugrundvöll okkar.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni verði vísað til hv. utanrmn.