Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 19:31:10 (7479)

2002-04-10 19:31:10# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[19:31]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Í umhvrn. hefur verið unnið að því að styrkja eftir megni stjórnsýslu umhverfismála. Einn liður í því starfi er að sameina í eina stofnun stjórnsýslu hinna hefðbundnu umhverfismála sem undir umhvrn. fellur. Þessir þættir snerta fyrst og fremst náttúruvernd; hollustuhætti, þar á meðal matvælamál; mengunarvarnir; veiðar á villtum dýrum og dýraverndarmál. Helstu rök fyrir samtengingu þessara málaflokka í eina stofnun í stað þess að reka þá á vegum þriggja stofnana og tveggja ráða er að með því er auðveldara að móta stefnu á sviði umhverfismála innan stjórnsýslunnar. Þannig næst einnig að einfalda og styrkja stjórnsýsluna, gera hana skilvirkari og þar með að auka réttaröryggið og styrkja faglega stöðu málaflokksins.

Þetta ætti enn fremur að leiða til þess að auðveldar yrði að sækja fram og ná fram þeim stefnumiðum sem sett eru fram í umhverfismálum. Þessi leið hefur verið valin í nágrannalöndunum og má sem dæmi nefna Statens Naturvårdsverk í Svíþjóð. Þar hafa menn um margra ára skeið byggt stjórnsýslu umhverfismála upp með þessum hætti.

Í frv. því sem hér liggur fyrir og samið er í umhvrn. er lagt til að sú starfsemi sem Hollustuvernd ríkisins, Náttúruvernd ríkisins og veiðistjóraembættið annast samkvæmt þar til greindum lögum verði sameinuð undir einni stofnun, Umhverfisstofnun, sem taki til starfa 1. jan. 2003. Enn fremur að starfsemi hreindýraráðs, sem er stjórnsýslunefnd á vegum ráðuneytisins, verði færð undir stofnunina og tekið verði á dýraverndarmálum með sama hætti og öðrum málum innan stjórnkerfisins. Í dag annast engin stofnun dýraverndarmál, heldur stjórnskipað ráð, dýraverndarráð, sem þó er aðeins til ráðgjafar.

Þessi verkefni eru fyrst og fremst á sviði stjórnsýslu, en áðurnefndum stofnunum er í dag falið að annast framkvæmd tiltekinna málaflokka fyrir hönd umhvrn. Auk þess yrði stofnuninni ætlað að annast eftirlit með framkvæmd alþjóðlegra samninga hér á landi á sviði mengunarvarna og náttúruverndar, sem í dag er í höndum Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og umhvrn.

Til að byrja með yrði innan Umhverfisstofnunar rekin sú starfsemi sem tengist matvælaeftirliti, sem Hollustuvernd ríkisins annast í dag, en þar er rekið sérstakt matvælasvið. Hins vegar er ljóst að vænta má að sett verði á fót sérstök matvælastofnun hér á landi í framtíðinni og mun sú starfsemi þá færast undir hana. Matvælasvið Hollustuverndar ríkisins hefur farið með umtalsverðan þátt í opinberu matvælaeftirliti í landinu og sinnt lögbundnum verkefnum sínum afar vel. Ég legg áherslu á að búið verði vel að matvælasviði í Umhverfisstofnun þar til matvælastofnun verður sett á fót og sú öfluga starfsemi matvælaeftirlits sem fram fer í dag á vegum matvælasviðs Hollustuverndar ríkisins verði tryggð í Umhverfisstofnun.

Þá er gert ráð fyrir því að rannsóknastofa Hollustuverndar ríkisins, sem fyrst og fremst annast matvælarannsóknir, færist ekki yfir til Umhverfisstofnunar, heldur starfi hún sem sjálfstæð rannsóknastofa undir umhvrn. þar til annað verður ákveðið. Rekstur rannsóknastofunnar er í dag fjárhagslega aðskilinn rekstri Hollustuverndar ríkisins og staða rannsóknastofunnar er sterk. Til skoðunar kemur, þegar endanleg niðurstaða fæst um skipan matvælamála, hvernig tengja mætti rannsóknastofuna og starfsemina sem þar fer fram við Matvælastofnun eða sameina öðrum hliðstæðum opinberum rannsóknastofum.

Starfsemi þeirra sem ætlunin er að sameina í Umhverfisstofnun er í dag rekin á þremur stöðum á landinu. Starfsemi Náttúruverndar ríkisins og Hollustuverndar ríkisins er í Reykjavík svo og dýraverndarráð. Á Akureyri er rekin starfsemi á vegum veiðistjóraembættisins og hreindýraráð er með starfsemi á Austurlandi. Ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum á þessu fyrirkomulagi.

Ekki er gert ráð fyrir að þessi breyting hafi nein áhrif á stöðu starfsfólks áðurnefndra stofnana, enda verður því tryggður réttur til áframhaldandi starfa. Þó er ljóst að hjá stofnuninni mun aðeins starfa einn forstjóri í stað þriggja í dag, forstjóra Hollustuverndar ríkisins, forstjóra Náttúruverndar ríkisins og veiðistjóra. Breyting yrði óhjákvæmilega á stöðu þessara aðila en þeim eiga að vera tryggð áframhaldandi störf á nýrri stofnun kjósi þeir svo.

Til að undirbúa sem best starfsemi hinnar nýju stofnunar frá upphafi er í frv. lagt til að skipuð verði nefnd sem í sitja forstjóri Hollustuverndar ríkisins, forstjóri Náttúruverndar ríkisins og veiðistjóri, auk fulltrúa ráðuneytisins. Mun nefndin verða ráðherra til aðstoðar við að undirbúa starfsemi Umhverfisstofnunar.

Þá er enn fremur lagt til að forstjóri hinnar nýju stofnunar verði ráðinn frá og með 1. ágúst nk. og starfi með nefndinni að undirbúningi hennar. Lagt er til að aðsetur stofnunarinnar verði í Reykjavík. Eins og áður segir verður jafnframt rekin starfsemi á Akureyri og á Austurlandi. Mikilvægt er að starfsemi Umhverfisstofnunar í Reykjavík verði frá byrjun rekin í sama húsnæði svo hægt verði að samþætta starfsemina sem mest frá upphafi. Þannig mundi sú starfsemi sem Hollustuvernd ríkisins og Náttúruvernd ríkisins sinna sameinast í sama húsnæði. Finna þarf starfseminni nýtt húsnæði. Rannsóknastofa Hollustuverndar yrði áfram í núverandi húsnæði.

Skrefið sem hér er stigið er það fyrsta í tengslum við sameiningu og uppstokkun stofnana á vegum ráðuneytisins. Einnig hefur verið ákveðið að kanna það hvort fella eigi saman stjórnsýslu byggingarmála og brunamála í eina stjórnsýslustofnun. Sú stofnun sæi um þá þætti sem Brunamálastofnun annast í dag, sem og starfsemi á byggingarsviði, sem Skipulagsstofnun fer með, auk annarra þátta er varða byggingarmál. Yrði þar með skilið á milli skipulagsmála og byggingarmála í stjórnkerfinu. Þetta kallar á lagabreytingar og er endurskoðun viðkomandi laga að hefjast. Síðar er einnig nauðsynlegt að skoða starfsemi á vegum umhvrn. varðandi vöktun, rannsóknir og vísindastarfsemi og fara yfir kosti þess að endurskipuleggja þá starfsemi.

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir meginefni frv. Ég tel mikilvægt að þessar breytingar nái fram að ganga á þessu þingi. Ég er sannfærð um að þær muni þegar frá líður reynast mikill styrkur fyrir stöðu umhverfismála í stjórnsýslunni. Afgreiðsla málsins nú mun eyða óvissu meðal starfsfólks og verður sem fyrst hægt að hefja undirbúning að rekstri Umhverfisstofnunar.

Ég legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hæstv. umhvrn.