Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 20:49:46 (7484)

2002-04-10 20:49:46# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[20:49]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. til laga um Umhverfisstofnun. Ég skal viðurkenna að ég væri kannski ferskari í framsetningu ef ég væri ekki, eins og við mörg hér, búinn að vaka meira og minna í þrjá sólarhringa. Ég vil þó segja við hæstv. umhvrh. að þessi framsetning, eins og lagt er upp með hér, er algjörlega ótæk í grundvallaratriðum. Hér erum við að fara út í miðstýringu í gríðarlega stóru landi en það á að nálgast þetta mál allt saman út frá allt öðrum forsendum en hér er gert. Vænleg umhverfisstefna og náttúruvernd verður aldrei keyrð hér út frá miðstýrðu batteríi. Þess vegna er það lykilatriði að hæstv. umhvrh. taki þetta mál allt saman aftur inn á borð til sín og hugsi uppsetningu dæmisins algjörlega upp á nýtt.

Til þess að hefja framfarasókn í umhverfismálum og gera betur úti um allt land á að mínu mati að stilla málum þannig upp að ríki og sveitarfélög taki höndum saman. Mjög víða úti um landsbyggðina eru sveitarfélögin með myndarlegar umhverfisdeildir sem sjá um stóra þætti umhverfismála. Það er að sjálfsögðu í Reykjavík, hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, stórum sveitarfélögum eins og Akureyrarbæ og víðar.

Til þess að utan um þennan málaflokk sé vel haldið þarf fyrst og fremst að styrkja þessar einingar með öllum tiltækum ráðum. Ef ég tek dæmi af Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu er borðleggjandi í mínum huga að þar á að nálgast málið þannig að t.d. veiðistjóraembættið sem ríkisstofnun geti verið hluti af því umhverfisbatteríi sem þar er rekið. Á alveg sama hátt á að nálgast hlutina fyrir austan ef við tökum það sem þegar er orðið, hreindýraráð, en það á að koma inn í samvinnuverkefni á vegum sveitarfélaganna og ríkisins þar sem verkefnin eru styrkt með póstum sem meira og minna er lagt til að verði miðstýrðir. Það er gallað fyrirkomulag. Þó að við vitum að forstöðumenn viðkomandi stofnana eigi að stjórna verður það ævinlega þannig að höfuðgarðurinn leiðir. Sú uppsetning ein og sér leiðir til þess að á örfáum missirum kemst þessi hugsun í gang úti um þetta stóra land: Hvað vilja þeir gera í þessum efnum? Í nálægðinni kæmi frekar hugsunin: Hvað getum við gert?

Þetta er lykilatriði hvað varðar þessi mál, og tala ég af nokkurri reynslu eftir að hafa obbann af starfstíma mínum verið umhverfisstjóri fyrir eitt stærsta sveitarfélag landsins. Það er lykilatriði að hugsað sé um þessi mál á sem breiðustum grunni og sem mest á heimavelli. Það er líka í anda þeirrar nýju hugsunar sem er í gangi í umhverfismálum. Þess vegna er þetta frv. gjörsamlega ónýtt, óbrúklegt, að mínu mati. Við eigum að stilla okkur upp allt öðruvísi, stilla því helst upp þannig að enga Umhverfisstofnun þurfi heldur verði þessum málum komið fyrir, eins og ég er að tala um, á stöðum þar sem þykir gott að vera með vissa starfsemi --- sem samkvæmt frv. er ætlað að vera í miðstýrðu batteríi --- og styrkja þannig framkvæmd umhverfismála úti um allt land. Ég geld varhuga við þessari miðstýringu allri og get ekki nógsamlega reynt að undirstrika hættuna af henni fyrir umhverfismálin.

Ég spái því að aldrei verði neitt félag úr þessu, og ekki þær framfarir sem við óskum að sjá í þessum málaflokki, ef miðstýringarhugsunin verður ráðandi. Það er lykilatriði í þessum málum. Ég veit ekki betur en að vel hafi gengið með veiðistjóraembættið á Akureyri, þetta er lítil skrifstofa í umhverfi sem tengist öðrum málaflokkum hvað varðar rekstur umhverfismála, bæði á vegum ríkisins og bæjarins, og þetta er það heppilegasta sem við getum gert.

Störfin við landvörslu geta líka tengst slíkum stofnunum sem settar yrðu á laggirnar vítt og breitt um landið þar sem aðstaða er til þess. Landvarsla, meðferð lands, rekstur og eftirlit á stórum landsvæðum gæti plumað sig án þess að því væri miðstýrt með ærnum tilkostnaði. Ég hef upplifað svona breytingar sjálfur sem embættismaður.

Það er hjákátlegt að segja frá því en ég upplifði miklar breytingar eftir að umhvrn. í Reykjavík var stofnað. Það hafði lítið að gera fyrstu árin og brá á það ráð að senda alls konar sérfræðinga til að skoða og hafa eftirlit með því sem embættismaðurinn á Akureyri, staðkunnugur maðurinn, hafði séð um, líklega í ein átta ár, án þess að nokkur sæi tilefni til að gera athugasemdir við starfið. Þannig voru tilburðir til að taka frumkvæði og atorku frá heimastjórnvöldum og koma því í miðstýrðan pott. Það var ákaflega óheppileg aðferð, aðferð sem verið er að leggja upp með hér líka þó að ráðuneytinu hafi ekki tekist ætlunin á Akureyri á sínum tíma.

Þess vegna held ég að við eigum að taka okkur tíma í þetta mál, skoða það algjörlega í nýju ljósi. Ekki velja miðstýrða stofnun, kortleggja verkefnin og sjá hvernig hægt er að fela aðilum úti um hinar dreifðu byggðir vissa hluti. Reynum heldur að koma þar á samvinnu, annaðhvort varðandi húsnæði eða með einhverjum formlegum hætti þar sem ríki og bær vinna saman að sameiginlegum markmiðum. Þetta er í mínum huga algjört grundvallaratriði til að við getum stjórnað svona stóru landi. Þegar til lengri tíma er litið mun þetta reynast miklu ódýrara --- eins og komið hefur fram eru verkefnin að langmestu leyti úti á landi, hvort sem það eru rannsóknir á lífríkinu, landið sjálft eða varslan á því --- vegna þess að stjórn þessara mála úti um hinar dreifðu byggðir, stjórnsýsluþátturinn og ferðalögin út frá höfuðborginni, er gríðarlega kostnaðarsamt dæmi. Það á að setja upp kerfi sem gerir þessa hugsun meðvitaða: Hér erum við, hvað ætlum við að gera? Svona gerum við best. Með miðstýringu eykst hættan á að ,,við`` víki fyrir ,,þeim``. Ég er hræddur um að afraksturinn af svona uppsetningu yrði sá.

Við eigum gríðarlega möguleika á grunni verklags sem hefur að allra mati gefist vel, samanber veiðimálastjóraembættið og hreindýraráðið sem hafa að allra mati gengið prýðilega. Að vísu hefur ekki verið gengið eins langt og ég legg hér til, með því að fara í viðræður við sveitarfélögin á heimavelli sem hafa tvíþætt gildi, þ.e. að koma þessum málaflokkum fyrir á stofnunum eða deildum sem þar yrðu reknar og jafnframt að hafa það að leiðarljósi og markmiði að gera þessum sveitarfélögum kleift að standa vel að sínum málum. Öll svona styrking með einhvers konar verkefnum af því tagi sem hefur verið sent út, eins og veiðistjóraembættið og hreindýraráð, styrkir auðvitað möguleikana á að gera stjórnsýsluna virkari heima fyrir.

Virðulegi forseti. Við verðum að láta af því að haga okkur hér viku eftir viku nánast eins og atvinnumálanefnd höfuðborgarsvæðis þar sem allt er tekið hingað inn. Við verðum að fara að líta á verkefnin sem á að vinna og temja okkur þann þankagang að koma verkum sem best fyrir. Það er grundvallaratriði. Það er ekki gert hér með svona uppsetningu, alls ekki. Þetta mun ekki gefast vel í því stóra landi sem við byggjum. Kannski gæti þetta gengið í Danmörku en þó gera þeir hlutina ekki á þann hátt eins og hér er verið að leggja upp með.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara leggja þetta í púkkið. Ég held að hér hefði átt að nota tækifærið til að koma fram með nýja hugsun, deila út verkefnum, ná markmiðum sem við sannarlega höfum ekki náð og þurfum að ná, auka möguleika sveitarfélaganna til að standa vel að þessum málum úti um landið og vera með framkvæmdina eins mikið í návígi og hægt er í staðinn fyrir miðstýringu.

Þess vegna legg ég til, virðulegi forseti, við hæstv. umhvrh. að þetta frv. verði látið bíða um sinn og menn freisti þess að hugsa þessi mál upp á nýtt. Ég er töluvert kunnugur og málkunnugur í mínum faghópi og ég tel að þorri þeirra sem hafa sýslað með þessi mál aðhyllist þá grunnhugsun sem ég set hér fram. Þess vegna er mikilvægt að ekki sé unnið með bundið fyrir augun frá miðstýrðum borðum höfuðborgarinnar, og þannig haldi menn að með fallegum orðum á blaði sé hægt að koma málum fyrir. Það er ekki svo.