Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 21:41:23 (7493)

2002-04-10 21:41:23# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[21:41]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var ekki gert, nei. Ríkisstjórnin er komin langt með annað kjörtímabil sitt. (Gripið fram í: Og síðasta.) Og örugglega það síðasta, já. Ekki hefur tekist að gera neinar marktækar breytingar á stjórnsýslunni á þeim tíma og menn gripu ekki tækifærið við stjórnarskiptin. Það virðist vera vonlaust að menn fari yfir þessi mál þó að mikil nauðsyn sé á því.

Við sjáum hæstv. sjútvrh. koma með mál þar sem verið er að búa til nýtt apparat til að fylgjast með fiskeldi þannig að það verði örugglega tvöfalt það apparat á vegum ríkisins sem sér um fiskeldi í landinu. Í staðinn fyrir að endurskipuleggja hlutina er staðið svona að málum. Hæstv. umhvrh. telur það allt í lagi og eðlilegt að hún horfi bara í gaupnir sér þegar hún er að velta því fyrir sér hvernig eigi að hafa hlutina og það sé ekki rætt innan ríkisstjórnarinnar að endurskipuleggja hlutina með tilliti til lengri framtíðar.