Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 21:42:33 (7494)

2002-04-10 21:42:33# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[21:42]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki á mínu valdi að stokka upp í Stjórnarráðinu en auðvitað getur maður átt aðild að því ef um uppstokkun er að ræða.

En varðandi umhvrn. þá er aldeilis búið að gera ýmislegt varðandi stjórnsýsluna þar. Ég get nefnt sem dæmi að við höfum núna enga stjórn yfir stofnun. Það er bara ráðherra, forstöðumaður og starfsmenn. Búið er að leggja niður t.d. stjórn Landmælinga og stjórn yfir Brunamálastofnun þannig að við höfum verið að hugsa stjórnsýslu okkar alveg upp á nýtt. Við erum búin að klára að hreinsa út allar stjórnir. Við töldum ekki æskilegt að hafa þær.

Við erum búin að leggja niður Náttúruverndarráð sem var umdeilt í upphafi en síðan sáu allir að það var eðlilegt að gera og samþykktu það og núna erum við að skoða Umhverfisstofnunina og teljum eðlilegt og brýnt að henni verði komið upp. Við höfum því aldeilis skoðað stjórnsýsluna í umhvrn.