Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 21:43:36 (7495)

2002-04-10 21:43:36# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[21:43]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ástæðulaust fyrir hæstv. ráðherra að oftúlka umræður eða snúa út úr þeim. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur aldrei útilokað einhverja endurskipulagningu á stjórnskipulagi umhverfismála eða stofnana en við skrifum ekki upp á þessi vinnubrögð hæstv. ráðherra. Það verður ráðherra að hafa alveg á hreinu. Og við áskiljum okkur rétt til þess að ræða hvaða tillögur sem upp koma í þeim efnum efnislega og erum alveg ófeimin við að vera á móti því sem við teljum þar óskynsamlegt hvort sem það varðar efni máls eða vinnubrögð.

Hæstv. ráðherra kýs að snúa því þannig að ég hafi ráðist að embættismönnum umhvrn. þegar ég gagnrýndi grg. frv. Ég tók í næstu setningu alveg skýrt fram að það væri ráðherra sem bæri alla ábyrgð á innihaldi grg. En ég sagði sem svo að það væri ágætt að æðstu embætti ráðuneytisins væru hér í hliðarsal ef þeir skyldu hafa aðstoðað hæstv. ráðherra eitthvað við að semja hana, t.d. prófarkalesið hana. Það má kannski kalla óþarfa stráksskap að taka svona til orða. En það var alveg skýrt í máli mínu, hin pólitíska ábyrgð er ráðherrans og ég held að það sé alveg ástæðulaust að útleggja það sem einhverjar árásir á embættismennina þó að þeir séu nefndir til sögu, því að þeir eru svo duglegir í vinnunni sinni að þeir sitja hérna í hliðarsalnum til styrkingar ráðherra sínum sem er hið besta mál. Það þarf ekkert að snúa út úr því. Við vitum það bæði, ég og hæstv. ráðherra, að það eru ráðherrar sem bera ábyrgð á öllum embættisathöfnum, öllum gjörðum, pappírum og öðru sem út úr ráðuneyti ganga.

Gagnrýni mín á framsetninguna í grg. stendur hins vegar óhögguð og ég dreg hana ekki til baka. Það er villandi að taka til orða með þeim hætti sem þarna er gert og láta að því liggja, gefa það í skyn að þetta sé allt saman gamalt kerfi meira og minna frá því fyrir daga ráðuneytisins þegar staðreyndin er sú að löggjöfin er svo til öll ný, yngri en ráðuneytið og búið er að endurskipuleggja margar þessar stofnanir eða flytja þær á allra síðustu missirum þannig að það stendur óhaggað.