Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 21:47:19 (7497)

2002-04-10 21:47:19# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[21:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þessi spilaborg er hrunin hjá hæstv. ráðherra. Hér viðurkennir hæstv. ráðherra að löggjöfin er öll ný og það er líka staðreynd að þessar stofnanir hafa verið endurskipulagðar og einar þrjár þeirra hafa í verulegum mæli tekið breytingum á allra síðustu árum. Náttúruvernd ríkisins er ný stofnun og alveg í glænýju húsnæði. Veiðistjóraembættið er nýflutt norður á Akureyri og hreindýraráð hefur verið endurskipulagt og fengið starfsmann á Austurlandi.

Við skulum fá útskrift af því sem ég sagði fyrr í kvöld um embættismenn og ráðherra. Ég er alveg ófeiminn við að skoða það. Ég er ósammála ráðherra um að í því hafi falist einhverjar ómaklegar árásir á embættismennina. Auðvitað hlýtur að mega nefna þá. Æðstu embættismenn í stjórnsýslunni hafa hlutverki að gegna. Þeir eru svo sem ekki yfir það hafnir að þeir séu nefndir á nafn. En það ber að sjálfsögðu að gera málefnalega. Ég mun biðjast afsökunar á því ef þarna hafa fallið einhver orð sem ég tel tilefni til þess.

Varðandi hina miklu sókn hæstv. ráðherra í umhverfismálum með því að endurskipuleggja stofnanir þá vísa ég til fyrri orða minna um það. Þetta verður ekki merkilegur bautasteinn, þ.e. ef þetta brölt hér gengur yfir höfuð fram.