Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 22:17:43 (7503)

2002-04-10 22:17:43# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[22:17]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni að það hafi raskað stórlega sálarró minni að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi ekki tekið þátt í umræðunni. Ég hangi á hjörunum í grófum dráttum enn þá. En hitt er rétt að ég saknaði hv. þingmanns til umræðunnar, og með réttu, það var ákaflega upplýsandi að fá hann inn í umræðuna og heyra viðhorf hans í þessum efnum. Hv. þm. upplýsti að hann hefði sem umhvrh. verið þeirrar skoðunar að það ætti að huga t.d. að því að sameina hina dreifðu rannsóknastarfsemi. Það get ég að mörgu leyti tekið undir. Sumt af þessu færi kannski betur saman, annað ekki. Það sagði ég einmitt í fyrri ræðu minni, að fara þyrfti efnislega yfir það hvað af þessu á vel saman og hvað ekki, hvað rekst kannski á, og nefndi t.d. hvort starfsemi veiðistjóraembættisins norður á Akureyri væri eitthvað betur sett sem útibú, og veiðistjóri sem deildarstjóri, í þessari stóru stofnun í Reykjavík. Það er ég ekki viss um.

Ég er líka sammála hv. þingmanni um að ef menn vilja fara virkilega vel í gegnum þennan geira þarf líka að taka til skoðunar landamærin milli umhvrn. annars vegar og hins vegar t.d. landbrn. og sjútvrn. Það er alveg rétt. Þetta vitum við að er eitt af heitu málunum í þessum samskiptum. Þetta er má segja svolítið eins og heit kartafla sem menn kasta kannski á milli sín. Hvar á náttúruverndarrannsóknarþátturinn að liggja og hvar nýtingarþátturinn? Það eru líka landamæri sem koma vel til greina og ég get alveg játað að ég væri að mörgu leyti hallur undir það fyrirkomulag en verð þó að viðurkenna líka að vegna hinna sögulegu ástæðna sem liggja að baki því að þetta er vafið inn í atvinnugreinarnar og fagráðuneytin atvinnugreinaskipt þarf náttúrlega líka rök til að rífa það fyrirkomulag upp. En þetta eru allt saman rök fyrir því að þetta mál þarf að vinna betur, og jafnframt að hv. þm. átti að taka þátt í umræðunni.