Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 22:44:34 (7510)

2002-04-10 22:44:34# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[22:44]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög áhugaverð umræða og í raun og veru þyrfti sérstakan eldhúsdag um þetta. Væri slag í því að Alþingi tæki sig einu sinni til og ræddi stjórnkerfis- og stjórnskipunarmál af þrótti í eins og einn dag og færi yfir það þó það væri ekki nema til þess að hafa um það málstofu hvaða framtíðarsýn menn hafa í þessum efnum því að þetta er alltaf að skjóta upp kollinum af og til en svo gerist ákaflega lítið eins og kunnugt er.

Ég útiloka ekkert í þessum efnum að skoða t.d. sameiningu þeirra ráðuneyta í atvinnuvegaráðuneyti. Það fer að vísu dálítið eftir því hvernig maður leggur hlutina upp og hvert eitt fyrirkomulag í þessum efnum hefur sína kosti og galla. Samþættingin í ráðuneyti eins og landbrn. sem fór með eiginlega alla anga landbúnaðarmálanna, hin faglegu mál, málefni búgreinanna, menntunarmálin, rannsóknirnar, það hefur líka kosti. Því er ekkert að leyna að það má alveg sjá í litlu þjóðfélagi ýmsa kosti í því. Þess vegna var ég hikandi við og studdi reyndar ekki hugmyndir sem voru að skjóta upp kollinum um að landbúnaðarskólarnir yrðu færðir undir menntmrn. eða þegar umhvrn. kom til sögunar að nýtingartengdir þættir eins og í skógrækt og landgræðslu færu þarna yfir. Það var í raun og veru það sem réði landamærunum að þessu leyti að menn lögðu þá ekki í að fara að skipta upp, annars vegar því sem væru rannsóknir, umsjá eða gæsla og hins vegar möguleg nýting tengd búgreininni eða atvinnugreininni í landbúnaði.

Síðan er eitt eftir í þessu og það er spurningin um umhvrn. versus fagráðuneytin. Á það að vera svona sem hv. þingmaður kallar meginráðuneyti eða eiga umhverfismálin að vera samþættuð meira inn í fagráðuneytin og deildir í þeim? Þetta er umræða sem við tókum líka 1989/1990 þegar umhvrn. var í burðarliðnum og menn horfðu til þess að sums staðar höfðu byggst upp feiknastór umhverfisráðuneyti, orðið að bákni. Annars staðar höfðu menn farið hina leiðina og lentu kannski í því eins og stundum áður að fara kannski bil beggja.