Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 22:46:49 (7511)

2002-04-10 22:46:49# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[22:46]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Öll þessi umræða er hv. þm., formanni VG, að kenna því að hann gaf sterklega til kynna að ekki gæti hann hugsað sér að ganga til náða án þess að heyra viðhorf formanns Samfylkingarinnar til þessara mála.

Ég nefndi áðan að umhvrn. hefði verið af vanefnum stofnað. Það sem ég átti við er, eins og hv. þm. benti á, að auðvitað lagðist sterk stjórnmálahreyfing gegn stofnun þess. Það tómlæti sem þá birtist gegn málaflokknum fylgdi honum allar götur, a.m.k. í þeirri ríkisstjórn sem ég sat í. Þar þurfti ég að slást við þá drauga sem fylgdu stofnun ráðuneytisins. Það bjó við mikið fálæti og var mjög erfitt að slást fyrir fjármagni til að rækja skyldur ráðuneytisins.

Í annan stað er umhvrn. auðvitað illa fatlað á meðan það fer ekki með lykilstofnanir eins og Skógræktina og Landgræðsluna. Það gefur augaleið. Það var hins vegar svo að í ráðherratíð minni voru lögð drög að styrkingu þess, þ.e. Hollustuvernd var þá færð undir ráðuneytið og þá voru líka lögð drög að því sem Guðmundur Bjarnason fylgdi síðan eftir, að Brunamálastofnunin var tekið undir ráðuneytið.

Það er einfaldlega þannig að umhvrn. nær aldrei fluginu sem það þarf að taka fyrr en það fær þessi vopn í hendur. Hvernig má það vera að ráðuneyti er falin varsla landsins en hefur ekkert að segja um landgræðslu eða um skógrækt? Það er auðvitað alveg út í hött.

Umræða um uppstokkun innan stjórnkerfisins er mjög þörf. Við höfum með vissum hætti byrjað hana hérna en hún tengist umræðum mínum við hv. þm. Ögmund Jónasson um daginn, um rannsóknir og vísindi. Það þarf auðvitað að taka margt með í reikninginn. En vissulega boðar það gott að við skulum hafa vaknað af værum blundi og tekið þetta til umræðu.