Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 22:48:56 (7512)

2002-04-10 22:48:56# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[22:48]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það var einkanlega eitt sem mér þótti athyglisvert í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Hann var að lýsa ágæti þjóðgarðs sem hann ásamt ýmsum öðrum þingmönnum úr Samfylkingunni, þó ekki hv. þm. Norðurl. e., Svanfríður Jónasdóttir, hefur hugmyndir um hvernig ætti að stjórna og hver eigi að annast gæslu hans. Innan þessa þjóðgarðs á samkvæmt tillögum Samfylkingarinnar að vera Krepputunga, hluti af Mývatnsöræfum, Herðubreiðarlindir, góður skiki af Ódáðahrauni, svona þvers á brunann. Hv. þm. sér fyrir sér að þessum þjóðgarði verði stjórnað frá Kirkjubæjarklaustri eða Höfn í Hornafirði og er að tala um að heimamenn eigi að stjórna þjóðgarðinum. Þeim megin, að sunnanverðu, er það blájökullinn sem á að vera innan þjóðgarðsins en hins vegar á að fara út fyrir þjóðgarðinn fyrir norðan. Sérstaklega er tekið fram í grg. með frv. að meiningin sé að viðhalda beit á þessum slóðum, á Mývatnsöræfunum og Útbruna, sem mér þótti mjög athyglisvert, Herðubreiðarlindum og Hvannalindum.

Má vera að þessar hugmyndir séu í samræmi við að hv. þm. óski eftir því að verða umhvrh. á nýjan leik og vill þá standa fyrir miklum búrekstri og taka að sér skógrækt og landgræðslu og þykjast vera góður búhöldur. Eru þetta allt merkilegar hugmyndir og gagnlegar hjá hv. þm.

Ég hefði á hinn bóginn ætlað að umhvrn. ætti að hafa með hendi gæslu þeirrar framkvæmdar sem er í landinu á viðkvæmum svæðum og þar fram eftir götunum og ætti ekki sjálft að bera ábyrgð á framkvæmdinni, ætti ekki sjálft að stýra traktorunum. En við höfum greinilega ólíkar skoðanir um hlutverk umhvrn. og kemur mér satt að segja ekki á óvart.