Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 22:55:09 (7515)

2002-04-10 22:55:09# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[22:55]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Aldrei mundi mér koma til hugar að stýra slíkum rekstri nema forustuhrúturinn væri eitthvað svipaður þeim sem hér talaði áðan og jarmaði hátt í ræðustól. Það er svo að hugmyndir mínar um þjóðgarða hafa breyst á síðustu árum í krafti reynslunnar.

Ég fékk samþykkta í ríkisstjórn Íslands tillögu um að stofna þjóðgarð um Snæfellsjökul. Það tók gríðarlega langan tíma að koma því í gegn. Naut ég þó atbeina kappsamra manna eins og hæstv. núv. samgrh. sem ég skipaði formann sérstakrar nefndar til þess að ráða því máli til lykta. Hvarvetna þar sem menn hafa reynt að friðlýsa lönd eða setja upp þjóðgarða á þeim forsendum að þar sé ríkiseign og leggja þurfi niður hefðbundinn búskap á viðkomandi svæði um leið og lýst er stofnun þjóðgarðs eða land er friðlýst þá rísa menn öndvert gegn slíkum hugmyndum.

Ég hef lært af reynslunni og ekki bara ég heldur líka þeir sem hafa staðið fyrir stofnun þjóðgarða erlendis. Ég nefni sérstaklega lönd eins og Skotland, Frakkland og Austurríki. Þar hafa menn sömu reynslu og hafa lent á sömu veggjum og við. Þar hafa menn þess vegna í vaxandi mæli reynt að starfa með heimamönnum. Þess vegna skiptir ákaflega miklu máli að þegar menn fara í svona ferðalag sé alveg ljóst að því sé ekki stefnt gegn hagsmunum heimamanna og að þeim sé gert kleift að viðhalda rekstri sínum innan viðkomandi þjóðgarða.

Þetta er hugsanabreyting hjá mér eins og hjá ýmsum öðrum. Ég tel jafnvel líkur á því að ef hv. 1. þm. Norðurl. e. mundi einhverja andvökunóttina leggja sig niður við að hugsa um þetta mundi hann komast að sömu niðurstöðu og ég. Honum er þrátt fyrir allt ekki alls varnað þegar náttúruvernd er annars vegar.