Framhald þingfundar

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 23:10:47 (7516)

2002-04-10 23:10:47# 127. lþ. 117.92 fundur 501#B framhald þingfundar# (um fundarstjórn), ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[23:10]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forseta fyrir að gera hlé á fundinum og boða formenn þingflokka til fundar við sig til að ræða þinghaldið. Þar gerði hæstv. forseti grein fyrir því að hann hygðist halda fundinum áfram enda þótt áliðið væri kvölds. Ég vil að það komi fram að ég tel það rangt. Í dag höfum við þegar afgreitt tvö stórmál til nefndar. Eins minni ég á að í gær var næturfundur, þá stóð þingfundur vel yfir miðnættið. Það er gert ráð fyrir nefndafundum í fyrramálið.

Ég geri mér vissulega grein fyrir því að samkvæmt áætlun þingsins er gert ráð fyrir því að ljúka þinghaldinu fyrir sumardaginn fyrsta. Ef það ætti að standast eru sex þingdagar eftir. Fjöldi þingmála bíður og ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því á þessari stundu að eitthvað verður undan að láta og að nokkur þeirra stórmála sem ríkisstjórnin hyggst koma fram á þessu þingi muni ekki ná fram að ganga ætlum við að halda okkur við tímaáætlanir þingsins.

Ég legg til, herra forseti, að við gerum núna hlé á fundinum, það verði haldið við fyrri áætlanir varðandi nefndastarf á morgun en þau þingmál sem enn eru óafgreidd verði tekin til umfjöllunar að loknum nefndadögunum. Það teldi ég eðlileg vinnubrögð.