Framhald þingfundar

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 23:12:28 (7517)

2002-04-10 23:12:28# 127. lþ. 117.92 fundur 501#B framhald þingfundar# (um fundarstjórn), BH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[23:12]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Þriðja kvöldið í röð vinnum við fram undir og yfir miðnætti. Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að málin sem við höfum verið að ræða í dag hafa meira og minna komist á dagskrá þingsins með afbrigðum vegna þess að þau eru of seint fram komin miðað við það sem þingsköp Alþingis gera ráð fyrir og koma öll frá hæstv. ríkisstjórn, herra forseti. Við þingmenn erum ósáttir við þennan seinagang af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég tel reyndar, herra forseti, að öll þessi mál hefðu getað komið fyrir þingið miklu fyrr. Við hefðum getað gefið okkur miklu meiri tíma í að ræða þau. Það er a.m.k. ljóst að það hefur staðið til nokkuð lengi að þessi mál kæmu á dagskrá þingsins, a.m.k. tvö þeirra --- kannski ekki það sem við eigum eftir að ræða eða stendur til að ræða inn í nóttina.

Ég vil, herra forseti, taka undir það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan. Það væri æskilegt að hætta nú, ljúka störfum þessa dags nú þegar nálgast fer miðnætti og byrja upp á nýtt þegar nefndarstörfum lýkur og reyna að stokka svolítið spilin þannig að við gerum okkur grein fyrir því sem við náum að ljúka áður en áætlun þingsins lýkur. Hins vegar er ljóst að við munum ekki ráða við að klára öll þau mál sem fyrir hinu háa Alþingi liggja áður en fyrirhugaðri starfsáætlun þingsins lýkur.