Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 23:18:14 (7519)

2002-04-10 23:18:14# 127. lþ. 117.7 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[23:18]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um heimild til handa fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast útgáfu skuldabréfa vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf.

Með frv. þessu er lagt til að fjmrh. verði heimilað að veita einfalda ríkisábyrgð á skuldabréfum að fjárhæð allt að 200 millj. bandaríkjadala, þ.e. tæplega 20 milljörðum íslenskra króna, útgefnum af móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar, deCODE genetics til fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar á sviði lyfjaþróunar.

Íslensk erfðagreining ehf. og móðurfyrirtæki þess deCODE genetics áforma að hefja þróun nýrra lyfja á grundvelli þeirra erfðafræðilegu uppgötvana sem til hafa orðið í núverandi starfsemi fyrirtækisins. Hin nýja nálgun þess á sviði grunnrannsókna byggðum á lýðerfðafræði gerir lyfjaþróun á þeim grundvelli afar áhugaverða, ekki síst vegna þess forskots, sem árangur fyrirtækisins á framangreindu sviði hingað til veitir.

Sú uppbygging sem Íslensk erfðargreining fyrirhugar krefst fjárfestingar sem nemur um 35 milljörðum króna. Er gert ráð fyrir að 250--300 ný störf geti skapast hér á landi innan tveggja til þriggja ára ef fyrirætlanir fyrirtækisins ganga eftir.

Þetta nýja fyrirtæki getur því haft víðtæk áhrif á atvinnuþróun hérlendis ekki síst í hátækni- og vísindagreinum. Ríkisstjórnin hefur á stefnuskrá sinni að stuðla markvisst að uppbyggingu slíkra tækifæra hér á landi.

Ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum beitt sér fyrir margháttuðum aðgerðum til að skapa fyrirtækjum sem starfa vilja á Íslandi eftirsóknarvert starfsumhverfi. Samhliða auknu frelsi í alþjóðaviðskiptum hafa augu stjórnvalda í vaxandi mæli beinst að því að treysta samkeppnisstöðu fyrirtækja, meðal annars með nýlegri lækkun fyrirtækjaskatta. Þessi stefna var og er nauðsynleg til þess að íslensk fyrirtæki geti mætt sífellt aukinni samkeppni erlendra keppinauta þar sem landamæri skipta sífellt minna máli og fjármagn og fyrirtæki leita einfaldlega til þeirra landa sem bjóða hagstæðustu aðstæðurnar.

Mikil alþjóðleg samkeppni ríkir um að bjóða upp á aðlaðandi starfsumhverfi fyrir þekkingarfyrirtæki enda hafa svæði þar sem slíkar alþjóðlegar þekkingarmiðstöðvar hafa risið notið góðs af þeirri þróun. Þekkingariðnaður er þess eðlis að fyrirtæki, jafnvel þó þau séu í samkeppni sín á milli, njóta góðs af því að vera staðsett nálægt hvert öðru. Því er hér um að ræða veruleg sóknarfæri fyrir Ísland sem haft getur í för með sér jákvæða keðjuverkun sem skilað getur þjóðarbúinu miklum tekjum og möguleikum þegar fram í sækir.

Til viðbótar við það sem áður er nefnt má nefna eftirfarandi ástæður fyrir aðkomu íslenska ríkisins að áformum þessa fyrirtækis:

1. Staðsetning verkefnisins. Ein meginforsenda þess að unnt verði að starfrækja verkefnið á Íslandi er aðkoma ríkisvaldsins með þeim hætti sem hér er lagt til.

2. Stærð verkefnisins. Verkefnið er af þeirri stærðargráðu að eðlilegt er að leitað sé eftir samstarfi við stjórnvöld.

3. Sérhæft verkefni. Með því að hefja lyfjaþróun á grundvelli erfðafræði er ljóst að Ísland væri að skipa sér í flokk með þróuðustu ríkjum á sviði hátækni.

4. Nýsköpun. Um er að ræða verkefni á sviði nýsköpunar, þekkingar- og hátækniiðnaðar sem er til þess fallið að auka fjölbreytni í atvinnulífi, efla menntun og þekkingarstig og gera landið eftirsóknarverðara fyrir hátækni- og háþekkingarfyrirtæki.

Með því að greiða fyrir nýrri starfsemi af þessu tagi og uppbyggingu hátæknisamfélags á Íslandi sem hefur mikla þjóðhagslega þýðingu, styrkir það efnahag þjóðarinnar þegar til lengri tíma er litið. Áhersla hefur verið lögð á uppbyggingu þessa iðnaðar í Evrópu, m.a. innan Evrópusambandsins.

Samkvæmt 61. gr. EES-samningsins og leiðbeiningarreglum Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð er stjórnvöldum heimilt að veita ríkisaðstoð á sviði rannsókna- og þróunarverkefna og getur sú ríkisaðstoð ýmist verið í formi beinna fjárstyrkja, skattaívilnana eða ríkisábyrgða svo dæmi séu nefnd. Um sérstakar ríkisábyrgðir til rannsókna- og þróunarverkefna gilda almennt minni kröfur um greiðslu markaðsverðs, þ.e. iðgjalds, og tryggingar fyrir ríkisábyrgðina en ef um almenna ríkisábyrgð væri að ræða.

Álitið er að ríkisábyrgð sú sem veitt er með frumvarpi þessu uppfylli skilyrði ríkisaðstoðar til rannsókna- og þróunarverkefna, eins og þau eru tilgreind í leiðbeiningarreglum ESA um ríkisaðstoð. Tilkynna þarf um ríkisaðstoð af þessum toga til Eftirlitsstofnunar EFTA og verður það gert samhliða frumvarpi þessu.

Ríkisábyrgðin, sem frumvarpið kveður á um, getur jafnframt uppfyllt skilyrði sem sett eru fyrir veitingu almennra ríkisábyrgða í leiðbeiningarreglum ESA um ríkisaðstoð. Eru þau almennu skilyrði sambærileg þeim sem kveðið er á um í lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir.

Ákvörðun um gjaldtöku fyrir ríkisábyrgðina mun m.a. ráðast af því hvers eðlis ríkisaðstoðin sem í frumvarpinu felst verður talin vera.

Gert er ráð fyrir að skuldabréfin verði gefin út með umbreytingaskilmálum sem fela í sér að ef gengi hlutabréfa í deCODE nær ákveðnum viðmiðunarmörkum breytast skuldabréfin í hlutabréf í félaginu. Þar með verður ekki lengur um lán að ræða og ríkisábyrgðin fellur brott.

Þar sem um einfalda ábyrgð ríkissjóðs verður að ræða mun deCODE bera fulla ábyrgð á greiðslu skuldabréfanna og verður skuldareigandi að fullreyna innheimtu hjá fyrirtækinu áður en ábyrgð ríkissjóðs verður virk.

Andvirði skuldabréfanna mun renna til hinnar nýju starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar á Íslandi og mun verða gerður samningur milli móðurfélags og dótturfélags vegna fjármögnunarinnar. Íslensk erfðagreining mun jafnframt að fullu ábyrgjast greiðslu skuldabréfanna.

Kostnaður ríkissjóðs af einfaldri ábyrgð á skuldabréfaútgáfunni, ef heimildin verður nýtt, er óviss. Í eðli sínu er lyfjaþróun áhættusöm starfsemi og Íslensk erfðagreining starfar á hátæknisviði þar sem breytingar geta verið mjög örar. Hins vegar er gert ráð fyrir umbreytingu skuldabréfanna í hlutabréf í deCODE ef gengi bréfa þess fer yfir ákveðin mörk og mun gildistími ríkisábyrgðarinnar þá styttast að sama skapi eins og áður er getið um. Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvernig gjaldtöku fyrir ábyrgðina verður háttað eins og áður er fram komið, þ.e. gjaldtökunni fyrir ábyrgðinni.

Með því að veita einfalda ábyrgð á skuldabréfunum gengur ríkissjóður í bakábyrgð fyrir deCODE. Ef skuldabréfin gjaldfalla verður að ganga að eignum félagsins áður en ábyrgð ríkissjóðs verður virk. Ávinningur fyrirtækisins af ábyrgðinni er fyrst og fremst auðveldari aðgangur að lánsfé og lægri vaxtakostnaður. Væntur kostnaður ríkissjóðs er fólginn í þeirri áhættu sem felst í ábyrgðinni verði heimildin nýtt.

Herra forseti. Að mörgu leyti er um óvenjulegt þingmál að ræða. Sú stefna hefur verið uppi á undanförnum áratug að hverfa frá því að veita ríkisábyrgðir til atvinnustarfsemi í landinu. En að sjálfsögðu höfum við miklar ábyrgðir sem hvíla á ríkissjóði vegna þeirra lánastofnana sem ríkið á, bæði ríkisbankana, Íbúðalánasjóðs og annarra stofnana sem eru að vísu mun minni heldur en þær sem ég hef nefnt. Eigi að síður teljum við réttlætanlegt í þessu tilfelli að fara út á þessa braut vegna þeirrar sérstöðu sem þetta mál hefur. Ríkisábyrgðir til atvinnufyrirtækja eru sem betur fer á undanhaldi. En við höfum í landinu sérstök lög um ríkisábyrgðir sem gera ráð fyrir að unnt sé að veita ábyrgðir ef sérstakar aðstæður eru uppi. Þess vegna eru líka sérstök ákvæði í EES-samningnum sem heimila slíkt við tilteknar aðstæður. Við teljum að þær aðstæður séu fyrir hendi í þessu máli og þetta mál sé því ekki aðeins réttlætanlegt heldur skynsamlegt. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að leggja til við Alþingi að þessi heimild verði veitt.

Heimildin sem frv. gerir ráð fyrir felst í að fjmrh. verði heimilað að ganga frá þessari ábyrgð að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Það er ekki enn vitað nákvæmlega með hvaða hætti næst að uppfylla þau en brýnt er, herra forseti, að heimildin fáist áður en þingstörfum lýkur í vor.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. þessu verði vísað til hv. efh.- og viðskn. og til 2. umr.