Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 23:58:02 (7523)

2002-04-10 23:58:02# 127. lþ. 117.7 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[23:58]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gætti þess vendilega að þrítaka í ræðu minni, í upphafi, í lokum og um miðbik hennar, að miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir er þetta afstaðan. Hins vegar er alveg ljóst að þó að eftir séu sex þingdagar eins og hv. þm. gat um, höfum við núna eina fjóra nefndadaga þar sem við í efh.- og viðskn. höfum tækifæri til að kalla fyrir okkur alla þá sérfræðinga sem við viljum. Ég tel að á þeim tíma eigi að vera hægt að fá yfirsýn yfir þetta mál, skoða kosti þess og galla.

Þegar ég sagði áðan að við munum ekki bregða fæti fyrir þetta mál ber auðvitað að skoða þá yfirlýsingu í ljósi þess hvar við erum stödd á þingtímanum. Það er einfaldlega þannig að ef flokkur eins og Samfylkingin sem hefur yfir 17 þingmönnum að ráða vildi leggjast gegn þessu máli og koma í veg fyrir að það yrði samþykkt þá hefur Samfylkingin fullt vald á því.