Orð forseta Íslands um Evrópusambandið

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 10:33:11 (7558)

2002-04-17 10:33:11# 127. lþ. 119.91 fundur 504#B orð forseta Íslands um Evrópusambandið# (aths. um störf þingsins), GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[10:33]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Þau tíðindi gerðust sl. mánudag að forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, hélt erindi á þemaráðstefnu Norðurlandaráðs í Reykjavík sem fjallaði um lýðræðismál. Í ræðu sinni gerði hann m.a. að umtalsefni Evrópusambandið og ýmsa þætti í rekstri þess og var satt að segja býsna gagnrýninn á ýmislegt sem þar fer fram. Af því tilefni langar mig til að beina orðum mínum til hæstv. utanrrh. því það er auðvitað ekki á hverjum degi sem forseti Íslands ræðir viðkvæm pólitísk deilumál, hápólitísk deilumál á borð við þau sem hér um ræðir. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvort honum finnist þessi afskipti forseta lýðveldisins eðlileg og sjálfsögð.

Ég hef heyrt í opinberri umræðu um þessi mál að sumum finnist það ekki úr vegi að forseti Íslands geti annað slagið skotið yfir sig skikkju fræðimannsins, stjórnmálafræðingsins, og hætt að vera forseti Íslands og þá um leið yfir það hafinn að ræða pólitísk háhitamál. Ég er þessu allsendis ósammála. Forseti Íslands er forseti Íslands og verður það, er það í augum þjóðarinnar og er það í augum alþjóðasamfélagsins. Mér er kunnugt um að áhorfendur erlendis, sérstaklega á þessari ráðstefnu Norðurlandaráðs, hlýddu ekki á stjórnmálafræðinginn Ólaf Ragnar Grímsson heldur forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson.

Ég óska viðbragða hæstv. utanrrh. við þessum ábendingum mínum.