Orð forseta Íslands um Evrópusambandið

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 10:43:45 (7563)

2002-04-17 10:43:45# 127. lþ. 119.91 fundur 504#B orð forseta Íslands um Evrópusambandið# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[10:43]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. hreinskilin svör og ég lýsi því yfir að ég deili skoðunum hans. Mér finnst það í hæsta máta mjög hættuleg braut sem fetuð er ef forsetaembættið ætlar nú í fyrsta skipti og þá væntanlega í framtíðinni að blanda sér í pólitísk viðkvæm deilumál. (SJS: Eru Evrópumálin kannski á dagskrá?) Það gengur auðvitað ekki, herra forseti, að líta þannig til að af því að Norðurlandaráð hafi verið að funda hér þá hafi það verið í lagi. Af því að forseti Íslands hafi í þeim tilfellum talað sem fræðimaður þá hafi það verið í lagi. Og eins og hv. þingmenn, fulltrúar Sjálfstfl. og Vinstri grænna hafa farið fram og af því að skoðanir forseta Íslands féllu í þessu tilfelli að viðhorfum þessara flokka í þessu tiltekna máli þá sé það í lagi. Um það er ekki verið að fjalla hér, herra forseti. Hér er verið að fjalla um það með hvaða hætti forseti Íslands kemur að umræðum í samfélaginu.

Það urðu miklar deilur um það á sinni tíð þegar forseti Íslands gagnrýndi lélega vegi í Barðastrandarsýslu, það voru engar deilur um að vegirnir væru vondir, en mörgum þótti samt forseti Íslands hafa gengið býsna langt þá. Hafi hann gengið langt í gagnrýni sinni þá, þá spyr ég: Hversu langt gekk hann nú? Svari hver fyrir sig.