2002-04-17 10:54:14# 127. lþ. 119.2 fundur 656. mál: #A framlag Íslands til þróunarsamvinnu og niðurstöður Monterrey-ráðstefnunnar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[10:54]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Framlag Íslendinga til þróunarsamvinnu hefur verið dapurlega lágt um langt árabil og lítið gengið að hækka það jafnvel þótt yfirlýst stjórnarstefna hafi um nokkurra ára skeið staðið til þess að lyfta því eitthvað í áföngum. Ég hef af og til reynt að minna á þetta mál þau tæpu 19 ár sem ég hef setið á þingi, og verður ekki sagt að árangurinn sé óskaplega mikill. Þess vegna er mjög dapurlegt að hafa nú í höndunum tölur sem staðfesta að í raun og veru miðar okkur nánast ekki neitt fram á veginn í þessum efnum og hlutfallið er nánast það sama og það hefur verið nokkur undanfarin ár, rétt í kringum 0,1% af þjóðarframleiðslu. Þarna skerum við okkur verulega úr í samanburði við t.d. frammistöðu annarra á Norðurlöndunum sem hér eru gjarnan nefndir til samanburðar. Danmörk og Noregur hafa verið um árabil í hópi fyrirmyndarríkjanna að þessu leyti, uppfyllt fullkomlega og jafnvel rúmlega það alþjóðlegar viðmiðanir og takmark Sameinuðu þjóðanna um að þróuð ríki verji um 1% af þjóðartekjum sínum til þróunarsamvinnu, þar af opinberir aðilar 0,7%. Svíþjóð og Finnland standa sig allvel, skammt á eftir hinum, og það gera reyndar fleiri ríki, t.d. Holland.

Að vísu hafa Danir, því miður, ákveðið að skera sérstaklega niður framlög til þróunarsamvinnu enda fastir í klóm ískaldrar hægri stjórnar þannig að þeirra hlutur mun eitthvað daprast. Eins og áður segir, herra forseti, er framlag Íslands þarna 0,1--0,2% í ár eins og var í fyrra. Það hefur þar af leiðandi sáralítið hækkað sl. 4--5 ár þvert ofan í það sem til stóð. Þessu til staðfestingar vitna ég í nál. minni hluta utanrmn. frá því í desember, sem ég skrifaði, og hafði þá aflað upplýsinga um þessi mál. Eins vísa ég í svar hæstv. utanrrh. við skriflegri fyrirspurn hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur.

Hin mikla ráðstefna í Monterrey í Mexíkó var ætluð til að þoka þessum málum fram á veginn og yfirlýst markmið ráðstefnunnar var að ná þar samkomulagi um að þróuð ríki tvöfölduðu framlög sín til þróunarsamvinnu. Bandaríkin komu með andstöðu sinni í veg fyrir að það yrði gert og niðurstaða ráðstefnunnar varð mjög dapurleg.

Ég geri ráð fyrir því, herra forseti, að ríkisstjórn Íslands hafi eitthvað skoðað hug sinn í þessum efnum í tengslum við ráðstefnuna og ef ég man rétt var hæstv. fjmrh. á ráðstefnunni sem fulltrúi ríkisstjórnar Íslands.

Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. utanrrh. spurninga af þessu tilefni:

1. Hvert er mat ráðherra á niðurstöðum Monterrey-ráðstefnunnar?

2. Hver eru viðhorf ráðherra til þeirra sjónarmiða sem bandarísk stjórnvöld settu fram á ráðstefnunni?

3. Hefur ríkisstjórnin tekið afstöðu til þess hvort auka beri framlög Íslendinga til þróunarsamvinnu sérstaklega í framhaldi af ráðstefnunni?

Þau þyrfti að lágmarki að tvöfalda svo okkur miðaði eitthvað fram á veginn, herra forseti, í átt að alþjóðlegum markmiðum.