2002-04-17 11:03:05# 127. lþ. 119.2 fundur 656. mál: #A framlag Íslands til þróunarsamvinnu og niðurstöður Monterrey-ráðstefnunnar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:03]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin en hlýt að lýsa nokkrunm vonbrigðum með þau. Sumpart lýsi ég mig algjörlega ósammála viðhorfum hæstv. ráðherra.

Það er vissulega rétt að Monterrey-ráðstefnan var söguleg en það er ekki hægt að halda því fram að hún hafi að öllu leyti verið vel heppnuð. Eftir stendur sú staðreynd að Bandaríkjamenn, með andstöðu sinni við að uppfylla markmið ráðstefnunnar um tvöföldun framlaga til þróunarsamvinnu, þynntu út niðurstöður ráðstefnunnar. Því miður var það látið eftir þeim eins og stundum áður. Sáttmálinn er góðra gjalda verður en aflið felst vissulega í þeim fjármunum sem velmegandi ríki eru tilbúin til að leggja í þennan málaflokk.

Í öðru lagi er ég mjög undrandi á svörum hæstv. ráðherra hvað varðar viðhorfin sem Bandaríkjamenn settu fram á ráðstefnunni. Bandaríkjamenn, eins og áður sagði, gerðu í fyrsta lagi að engu þau markmið sem fyrir lágu, að stórhækka framlögin. Í öðru lagi ákváðu þeir að skilyrða framlög sín. Það er auðvitað mjög háskalegt í sjálfu sér, ef einstök ríki ákveða að skilyrða framlög sín við ýmis pólitísk markmið.

Í þriðja lagi vísuðu Bandaríkin á fjölþjóðafyrirtækin og sögðu að það ætti að greiða götu þeirra um heiminn og þau mundu með fjárfestingum sínum leysa vandann. Annað hefur nú komið á daginn í Asíu, Indónesíu og víðar þar sem menn geta sagt tvennar sögur af þeirri blessun að fá fabrikkur frá alþjóðafyrirtækjunum og því þrælahaldi sem í kringum það þrífst. Þannig er full ástæða til að hafa verulegar áhyggjur einmitt af því hvernig Bandaríkin komu fram á þessari ráðstefnu. Ég tel að það verðskuldi ekki þau jákvæðu ummæli sem hæstv. utanrrh. hafði hér, þótt hann langi mikið að vera í góðum færum við Bandaríkjamenn og geta átt við þá vinsamleg samtöl.

Jafnframt eru það vonbrigði að ríkisstjórn Íslands skuli ekki á nokkurn hátt hafa mótað sér áherslur í þessum efnum. Það er ekki rétt að það hafi gengið vel að framfylgja fimm ára áætlun ríkisstjórnarinnar. Hlutfallið af þjóðartekjum til þróunarsamvinnu stendur nánast í stað hvert árið á fætur öðru.