Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:07:40 (7573)

2002-04-17 11:07:40# 127. lþ. 119.3 fundur 671. mál: #A þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ArnbS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:07]

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Til eru þýðingafyrirtæki úti á landi sem vinna bæði fyrir stærri og minni fyrirtæki, einstaklinga og jafnframt erlenda aðila. Ég ætla að taka dæmi um tvö þýðingafyrirtæki.

Fyrra dæmið er um þýðingafyrirtæki á Egilsstöðum, Lingua að nafni, sem tekur að sér verkefni alls staðar að af landinu og hefur m.a. unnið fyrir ýmis stórfyrirtæki. Fyrir það fyrirtæki vinnur einnig fólk alls staðar að af landinu, allt frá Breiðdal til Reykjavíkur. Eigandinn, Philip Vogler, sagði mér að hann hafi haft allt að tíu manns starfandi í einu að einu og sama verkefninu en alls geti hann leitað til 20--30 manns víðs vegar um landið. Þetta er mögulegt með tilkomu internetsins og tölvusamskipta og þannig er auðvelt að reka fyrirtæki af þessu tagi. Auk þess eru til þýðingaforrit og gagnagrunnar sem eru nútímaþýðendum til mikils gagns og hægðarauka.

Hitt dæmið sem ég vil taka er írskt fyrirtæki, sem m.a. hefur útstöð á Seyðisfirði. Stofnandi fyrirtækisins Global Translations, Vera Taslova að nafni, starfar hér á landi en sonur hennar hefur tekið við rekstri fyrirtækisins í Írlandi. Fyrirtækið er þannig upp byggt að fimm manns starfa á skrifstofunni í Dublin en 300 manns starfa fyrir fyrirtækið utan þess sjálfs, reyndar flestir á Írlandi, en auk þess sem Vera starfar á Seyðisfirði. Fyrirtækið ræður yfir kunnáttu í þýðingum á allt að 70 tungumál. Fyrirtækið er með fastan samning við írska dómsmálaráðuneytið um þýðingar og túlkun. Það starfar m.a. einnig fyrir írsku lögregluna, lögfræðinga, lyfjafyrirtæki og fjármálafyrirtæki. Einnig tekur fyrirtækið að sér þýðingar fyrir Evrópusambandið og þekkir því að sjálfsögðu Brussel-termínólógíuna. Þessi fyrirtæki hafa bæði lagt sig fram um að veita skjóta og örugga þjónustu.

Hæstv. forseti. Ég tek þessi tvö dæmi annars vegar til að sýna fram á að til eru þýðingafyrirtæki úti um land nú þegar sem takast á við stór og flókin þýðingaverkefni. Hins vegar vil ég með þessu benda á að ekki virðist vefjast fyrir írska stjórnkerfinu að gera samninga við einkafyrirtæki um stórverkefni sem eru unnin vítt og breitt um Írland og einnig á Austfjörðum á Íslandi.

Við hljótum því að spyrja okkur, hæstv. forseti, hvort hinar miklu þýðingar utanríkisráðuneytisins séu ekki kjörið verkefni fyrir stjórnvöld að flytja út á land í leit okkar að heppilegum verkefnum til að deila út úr Stjórnarráðinu til landsbyggðarinnar.

Það er mikið umhugsunarefni að einkafyrirtæki hafa flutt starfsemi sína út á land vegna þess að þau telja sig hafa hag af því og það sé heppilegt fyrir rekstur þeirra. Þetta virðist ekki gilda um opinber fyrirtæki og stofnanir. Það virðist kosta mikil átök, úlfúð og umræður að hið opinbera íhugi að flytja störf út á land og nýta starfskrafta þess fólks sem þar býr.

Ég hef því beint þessum spurningum til utanrrh. varðandi þýðingamiðstöðvar.