Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:11:07 (7574)

2002-04-17 11:11:07# 127. lþ. 119.3 fundur 671. mál: #A þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:11]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Þýðingamiðstöð utanrrn. sinnir þýðingum af öllum þeim gerðum sem eru teknar upp í EES-samninginn og þýðir þannig nokkur þúsund blaðsíður á ári. Þessar þýðingar eru mjög sérhæfðar og krefjast mikillar nákvæmni og reynslu. Þýðingamiðstöðin tryggir að EES-reglur séu aðgengilegar Íslendingum og Ísland uppfylli þær skuldbindingar EES-samningsins er varða þýðingar yfir á þjóðtungur samningsaðila. Jafnframt gegnir þýðingamiðstöðin mikilvægu hlutverki við að varðveita íslenska tungu með því að gæta samræmis og gæða í þýðingum á EES-reglum, auk þess að sinna nýyrðasmíði í samráði við Íslenska málstöð eftir því sem þörf krefur.

Ég ætla síðan að svara þeim spurningum sem hér komu fram. Að því er fyrstu spurninguna varðar vinna 15 manns á þýðingamiðstöðinni í 14,25 stöðugildum.

Að því er varðar aðra spurninguna eru allir starfsmenn þýðingamiðstöðvar með háskólapróf, BA-próf, tvöfalt BA-próf, MA-próf, hluta af doktorsnámi, flestir á sviði íslensku og/eða erlends tungumáls, en nokkrir starfsmenn hafa háskólapróf í raunvísindum og félagsvísindum. Auk formlegrar menntunar hafa margir starfsmenn áralanga reynslu af þýðingum.

Að því er varðar þriðju spurninguna starfar eins og stendur enginn á vegum þýðingamiðstöðvarinnar í fjarvinnslu. Ráðuneytið hefur hins vegar unnið að athugun á því hvort til greina geti komið að færa hluta af starfsemi þýðingamiðstöðvar utanrrn. út á land og/eða gefa fólki úti á landi færi á að vinna að þýðingaverkefnum á vegum ráðuneytisins. Iðntæknistofnun var fengin til að gera á því könnun hvort vænlegt væri að sinna slíkri þýðingarvinnu á landsbyggðinni.

Niðurstaða skýrslunnar var á þá leið að það kæmi vel til greina að fá einstaklinga úti á landi til að vinna að þýðingaverkefnum, en forsenda þess væri að þýðingamiðstöðin tæki í notkun svokallað ,,þýðingarminni``, hugbúnað sem stuðlar að samræmdum og vönduðum þýðingum. Í skýrslunni er jafnframt vakin athygli á því að þær þýðingar sem þýðingamiðstöðin fæst við eru alla jafna mjög þungar og tæknilegs eðlis og því ekki taldar vænlegar fyrir einyrkja að eiga við, heldur fremur hóp þýðenda.

Þýðingamiðstöðin hefur að undanförnu unnið að uppbyggingu um 30 gagnagrunna í þýðingarminni og verður síðar á þessu ári hægt að meta að hvaða leyti grunnurinn geti nýst við þýðingar í fjarvinnslu og í framhaldi af því, þegar það liggur fyrir, verða frekari ákvarðanir teknar.