Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:14:23 (7575)

2002-04-17 11:14:23# 127. lþ. 119.3 fundur 671. mál: #A þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:14]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir að hafa orð á þessu máli. Það er eðlilegt að gera miklar kröfur varðandi þær þýðingar sem hér um ræðir. Auðvitað er hægt að gera það með samningum við þá sem taka þessi mál að sér að tryggt sé að gæðin séu samkvæmt ákveðnum kröfum í þessum verkefnum eins og öðrum verkefnum. Það er ekki bara á höfuðborgarsvæðinu sem menn hafa vald á erlendu tungumáli, svo er auðvitað víða annars staðar. Ég verð að játa að ég verð fyrir miklum vonbrigðum í hvert skipti sem þessi mál ber á góma vegna þess hversu erfitt virðist að færa þessi störf út á land.

Það rifjast upp fyrir mér að ég spurði einu sinni líka um möguleika á að færa til verkefni á vegum Ratsjárstofnunar út á land. Það er einfaldlega þannig að Ratsjárstofnun starfar á höfuðborgarsvæðinu, í Keflavík og í nokkrum ratsjárstöðvum á landsbyggðinni og er að mínu mati eðlilegt að reyna að styrkja þessa starfsemi á landsbyggðinni, færa verkefni sem nú eru unnin á vegum Ratsjárstofnunar inn í ratsjárstöðvarnar og styrkja starfsemi þeirra og atvinnustarfsemi á landsbyggðinni í leiðinni.