Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:15:39 (7576)

2002-04-17 11:15:39# 127. lþ. 119.3 fundur 671. mál: #A þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:15]

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka umræðuna hér og hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Ég tel að það sé mjög mikilsvert að nú sé verið að vinna að því í ráðuneytinu að koma þessum störfum út úr ráðuneytinu. Þetta eru greinilega störf sem hægt er að vinna annars staðar. Það er mjög skiljanlegt að það hafi þurft að byggja upp vissan gagnagrunn í upphafi þegar menn tóku yfir EES-samninginn. Hins vegar að tíu árum liðnum hlýtur sá gagnagrunnur að vera orðinn slíkur að þýðendur geti nýtt hann hvar sem þeir starfa á landinu. Það ætti að tryggja vönduð vinnubrögð að slíkur gagnagrunnur sé til. En það er alveg ljóst að þessi verkefni, ekki síst þýðingaverkefni, geta menn unnið í fjarvinnslu. Það gera menn nú þegar, þ.e. vinna í fjarvinnslu, og þó að það sé á höfuðborgarsvæðinu þá vinna menn svona störf í fjarvinnslu.

Við fréttum af því á sínum tíma þegar við fjölluðum um málefni þýðenda hjá sjónvarpinu að t.d. er fólk sem vinnur erlendis en starfar við að þýða fyrir íslenska ríkissjónvarpið. Þetta eru störf sem þarf ekki að vinna þannig að allir séu saman í grúppu. Þetta eru heppileg störf til þess að flytja út um land og ég vil hvetja hæstv. utanrrh. til þess að vinna mjög ákveðið að því máli nú að koma þessum störfum sérstaklega út til landsbyggðarinnar. Ég vil leggja áherslu á það.