Þjóðareign náttúruauðlinda

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:19:19 (7577)

2002-04-17 11:19:19# 127. lþ. 119.4 fundur 578. mál: #A þjóðareign náttúruauðlinda# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:19]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ber fram fyrirspurn frá okkur hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur um þjóðareign náttúruauðlinda sem hljóðar svo:

Hvað líður framkvæmd þeirrar megintillögu auðlindanefndar að ákvæði um þjóðareign náttúruauðlinda og landsréttinda sem ekki eru háð einkaeignarrétti verði sett í stjórnarskrá?

Tillagan er um nýtt ákvæði í VII. kafla stjórnarskrárinnar þar sem náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti verði lýstar þjóðareign. Ákvæðið verði svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.``

Herra forseti. Nú er til meðferðar í þinginu frv. frá hæstv. sjútvrh. um stjórn fiskveiða. Þannig erum við enn á ný að breyta lögum um stjórn fiskveiða án þess að bundinn sé endi á þá réttaróvissu sem ríkt hefur um rétt þeirra sem fengið hafa leyfi til veiða, svo notuð séu orð úr skýrslu auðlindanefndar. Það er orðið afar brýnt að Alþingi móti auðlindastefnu þannig að fyrir liggi hvernig fara skuli með heimildir til nýtingar auðlinda, en mjög ólíkar reglur gilda um aðgang og nýtingu auðlinda okkar. Nefna má nýlegan úrskurð óbyggðanefndar um að ríkið eigi öll vatnsréttindi sem Landsvirkjun hefur nýtt, en engin stefna er um hvernig skuli fara með almenn vatnsréttindi, hvað þá hvort greiða skuli fyrir afnot af þeirri auðlind. Ég bendi á, herra forseti, að í Morgunblaðinu 13. apríl lýsti Eiríkur Tómasson lagaprófessor því yfir að hann teldi að Landsvirkjun bæri að greiða ríkinu auðlindagjald fyrir vatnsréttindi.

Rannsóknir um hugsanlega olíu á landsgrunni okkar eru hafnar. Hvernig verður farið með slíka auðlind? Ég hef áhuga á því að heyra frá hæstv. forsrh. hvernig hann hyggst bregðast við þessari tillögu auðlindanefndar og hvort hann muni lögfesta þetta eða beita sér fyrir því að við munum setja þetta ákvæði í stjórnarskrá.