Þjóðareign náttúruauðlinda

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:25:14 (7579)

2002-04-17 11:25:14# 127. lþ. 119.4 fundur 578. mál: #A þjóðareign náttúruauðlinda# fsp. (til munnl.) frá forsrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:25]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hér er hreyft afar mikilsverðu máli og full ástæða er til þess að taka grannt eftir því sem hæstv. forsrh. er að segja. Hann segir sem sagt að þetta sé allt saman í þoku enn þá, að það sé þó líklegt að eitthvað verði gert í málinu. Samt er hæstv. forsrh. búinn að standa fyrir því að leggja fram frv. til laga um stjórn fiskveiða sem á að heita einhverjar efndir á loforðunum fyrir síðustu kosningar. En það fylgir ekki með nein skýr yfirlýsing um það hvernig eigi að fara með þessa auðlind í framtíðinni.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst að það hefði átt að koma fram strax hverjar þessar fyrirætlanir væru og að ekki ætti að hafa það dulið í þoku þangað til einhvern tímann, því það liggur ekkert fyrir. Auðvitað vita allir að ef á að gera breytingu á stjórnarskránni þá verður það gert á því þingi sem lýkur fyrir kosningar. Gott og vel, en það er samt hægt að tala skýrt í málinu og setja fram stefnu stjórnar.