Þjóðareign náttúruauðlinda

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:26:32 (7580)

2002-04-17 11:26:32# 127. lþ. 119.4 fundur 578. mál: #A þjóðareign náttúruauðlinda# fsp. (til munnl.) frá forsrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:26]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þó svo að hæstv. forsrh. hafi kannski ekki talað alveg skýrt hér áðan, mátti þó skilja af máli hans að vilji væri fyrir því að breyta stjórnarskránni í þá veru að þar yrðu skýrð réttindi, bæði eigenda náttúruauðlinda og sömuleiðis þeirra sem fá leyfi til að nota þær. Þetta er mjög mikilvægt, herra forseti, vegna þess að þjóð sem lifir að eins miklu leyti á nýtingu náttúruauðlinda og Íslendingar gera, þarf að hafa ákveðið skikk á þessum málum. Á meðan menn gátu enn verið í landnámi á hverju sviðinu á fætur öðru var þörfin kannski ekki jafnbrýn og nú.

En nú er farið að þrengjast um, herra forseti. Nú þurfum við svo sannarlega að setja reglur. Menn þurfa að vita hver réttur þeirra er, hvort sem þeir eru eigendur auðlindarinnar eða notendur. Ákvæði það sem auðlindanefnd lagði til er vel hugsað og vel grundað þannig að ég vænti þess að hæstv. ríkisstjórn kjósi að nota það.