Þjóðareign náttúruauðlinda

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:27:50 (7581)

2002-04-17 11:27:50# 127. lþ. 119.4 fundur 578. mál: #A þjóðareign náttúruauðlinda# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:27]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þetta svar. Þegar við vorum að ræða frv. hæstv. sjútvrh. um stjórn fiskveiða fyrir fáum vikum síðan spurði ég hann sérstaklega um þetta atriði vegna þess, eins og hér hefur komið fram, að okkur í Samfylkingunni hefur fundist að við þyrftum að vita hvernig sú grundvallarstefna sem þarf að vera mörkuð í stjórnarskrá verði orðuð og á hvaða grundvallarstefnu önnur lagaákvæði sem eru sett hér í þessum sal byggja. Hæstv. sjútvrh. vísaði þessari spurningu frá sér og upplýsti að hún lægi náttúrlega ekki á hans borði. Á honum var að skilja að þetta mál hefði ekki verið rætt í ríkisstjórninni, án þess að ég ætli þar með að leggja honum skoðun í munn. En það var ástæða þess að ég bar fram þessa fyrirspurn. Og ástæða þess að ég las allt ákvæðið sem birt er og tillaga er um í skýrslu auðlindanefndar er sú að mér finnst þetta ákvæði segja allt sem segja þarf um hvað við þurfum að halda utan um varðandi okkar auðlindir og þjóðareign.

Það sem ég heyri hæstv. forsrh. segja og sem að hluta til hefur verið gagnrýnt hér hjá félögum mínum úr Samfylkingunni, er að hann er ekki tilbúinn að segja nákvæmlega hvernig ákvæðið verði bundið í stjórnarskrá, en að á komandi vetri muni hann beita sér fyrir því að hér verði lögð fram tillaga sem fari í hefðbundið ferli, verði afgreidd á næsta þingi og á fyrsta þingi eftir næstu kosningar. Mér finnst það á sinn hátt fagnaðarefni, en undirstrika að mikilvægt er að þau atriði sem auðlindanefndin hefur undirstrikað verði tekin fyrir í þeirri tillögu.