Þjóðareign náttúruauðlinda

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:29:56 (7582)

2002-04-17 11:29:56# 127. lþ. 119.4 fundur 578. mál: #A þjóðareign náttúruauðlinda# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:29]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Fundið var að því að ég hefði ekki talað hér nægilega skýrt og vel má vera að ég hafi ekki gert það. En ég talaði eins skýrt um þetta mál og efni eru til á þessari stundu.

Ég hlýt þó að viðurkenna það sem ég hygg að margir hafi vitað, að þegar þessi ákvæði voru í mótun í auðlindanefndinni þá voru þau auðvitað kynnt bæði mér og hæstv. utanrrh. á vinnslustiginu. Og þó að við höfum ekki verið í þeirri stöðu að leggja endanlega blessun yfir þær, vegna þess að það var nefndarinnar en ekki okkar, þá voru okkur kynntar þessar tillögur. Ég minnist þess að við utanrrh. fórum sameiginlega fyrir þær a.m.k. nokkrum sinnum þannig að í þeim var ekkert sem kom okkur á óvart, enda hefði verið óeðlilegt að mínu viti að a.m.k. stjórnarfulltrúar í slíkri nefnd hefðu ekki látið okkur fylgjast með því sem menn voru að kokka um svo mikilvæg málefni. Við nauðaþekkjum því þessar tillögur alveg frá getnaði til fæðingar, ef svo má segja. Ég segi því að við hljótum að byggja á þeim a.m.k. að verulegu leyti. Ég vil ekki taka sterkar til orða því að ég vil ekki skuldbinda ríkisstjórnina eða þingflokkana. Mér finnst það ekki eðlilegt. En þetta er sagan. Þetta er forsendan. Og ég bæti því við, eins og ég gerði áðan, að ég mundi ætla að ef þeir sem síðan stóðu að verkum í auðlindanefndinni teldu ef að innihald þessara mikilvægu stjórnarskipunartillagna mundi ekki koma þá hefði grundvellinum eiginlega verið kippt undan því samstarfi og samkomulagi sem þarna náðist.