Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:35:21 (7584)

2002-04-17 11:35:21# 127. lþ. 119.5 fundur 610. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:35]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. þm. las þá tillögu sem hann og félagar hans í Vinstri grænum fluttu á sínum tíma. Sú tillaga var nokkuð skýr, ljós og skiljanleg. Að vísu voru menn kannski ekki sammála því sem fylgdi tillögunni, að það bæri að fresta öllum hugmyndum um einkavæðingu meðan efni tillögunar yrði framkvæmt.

Síðan gerist það í þinginu að tillögunni er loks breytt og þegar ég fékk málið til meðferðar og ætlaði um haustið að fara að vinna samkvæmt tillögunni, þá var mér það gjörsamlega og algerlega ómögulegt svo ég skrifaði þinginu bréf 1. nóvember sem ég les, með leyfi forseta:

,,Forseti Alþingis, Halldór Blöndal,

Alþingi við Austurvöll, 150 Reykjavík.

Reykjavík, 1. nóvember 2001.

Ráðuneytið hefur fengið lærða menn í ýmsum fræðum til að fara yfir fyrirmæli Alþingis og það fær enginn skilið hvað í þeim felst.``

Hvernig er nú þessi texti:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd,`` --- þetta skilja allir --- ,,sem í verði m.a. fulltrúar allra þingflokka sem geri samanburð á þróun og reynslu ...`` --- það á að gera samanburð á þróun og reynslu. Hvað þýðir þetta? --- ,,í tengslum við einkavæðingu og einkaframkvæmd og fjalli um framtíðarkosti í þeim efnum.`` --- Gera samanburð á þróun og reynslu í tengslum við einkavæðingu og einkaframkvæmd. Ég gat ekki skipað nokkra nefnd eða gefið slík fyrirmæli. Þessi texti er algerlega óskiljanlegur öfugt við frumtexta Vinstri grænna sem var algerlega skýr og ljós. Þegar nefndin loks lagði blessun sína yfir tillöguna og samþykkti hana --- ég verð því miður að viðurkenna, ég er búinn að láta fletta því upp, að ég greiddi þessari brtt. frá nefndinni atkvæði og sjálfsagt allur þingheimur. En það er algerlega ómögulegt að segja fyrir um það hvað átti að gerast þarna. Ég átti von á því, þegar ég hafði sent þetta bréf til þingsins, að þá yrði nefndinni gerð grein fyrir þessum vanda, þetta var 1. nóvember sl., er að verða hálft ár síðan, þannig að hún gæti þá tekið á málinu því það virðist hafa verið vilji hennar til að gera eitthvað efnislega í málinu, og á því tímabili hef ég náttúrlega ekki gert neitt í málinu. Mér var það algerlega hulið og ómögulegt. Ég vænti þess að nefndinni yrði sýnd þessi niðurstaða framkvæmdarvaldsins sem verður að hlýða þinginu í þessum efnum en það verður að vera þannig að hægt sé að framkvæma það. En það er ekki hægt ef við lesum textann, öfugt við þann texta sem Vinstri grænir fluttu.