Jarðalög

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:45:51 (7589)

2002-04-17 11:45:51# 127. lþ. 119.7 fundur 429. mál: #A jarðalög# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:45]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Þann 14. desember sl. sendi Ríkisendurskoðun landbrh. álit sitt á framkvæmd landbrn. á sölu ríkisjarða. Ráðherra hafði þá beðið um slíkt álit bréflega 3. október. Í þessu áliti kemur fram að Ríkisendurskoðun lagði ekki mat á söluverð þeirra jarða sem seldar voru, enda var óháður sérfræðingur fenginn til að meta þær eða fagaðili, Ríkiskaup, og verðmat þeirra lagt til grundvallar.

Við mat á verðgildi jarða var miðað við að ábúandi ætlaði að stunda þar áfram hefðbundin búskap. Varðandi það beinir ríkisendurskoðandi þeim tilmælum til landbrn. að það kanni hvort ekki sé tímabært að huga að breytingu á þessari áherslu þannig að við mat á ríkisjörðum megi taka tillit til annarra mögulegra nytja við verðlagningu þeirra.

Nú hefur komið í ljós að sumir sem keypt hafa ríkisjarðir hafa ekki haft áform um hefðbundinn búskap og hafa þeir haft verulegan hagnað af kaupunum. Við mat á ríkisjörðum er ekki metinn fullvirðisrétturinn sem fylgir jörðinni og bóndinn eignast við kaupin. Ég hef áður nefnt sölu jarðarinnar Kaldbaks sem bóndi keypti á rúmar 4 millj. af ríkinu en fékk síðan milli 5--6 millj. kr. fyrir fullvirðisréttinn sem hann eignaðist við kaupin.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið hefur Ríkiskaupum ekki verið falið að meta ríkisjarðirnar, þ.e. ekki hlunnindin sem þeim fylgja svo sem fullvirðisréttinn, þ.e. verðmæti sem ættu að metast og bætast við verðið þegar ríkisjörð er seld.

Ég er með annað dæmi til samanburðar þar sem ábúanda ríkisjarðar var synjað um kaup á jörðinni sem hann bjó á. Hann fékk reyndar skeyti um uppsögn á jörðinni. Öðrum var seld jörðin undir annað en hefðbundinn búskap. Þessi bóndi eignaðist því ekki fullvirðisrétt sinn sem var rúmar 3 millj. kr. að verðgildi, nokkuð sem hæstv. ráðherra kallaði umbun fyrir ævistarfið í umræðu um sölu ríkisjarða í vetur. Því spyr ég:

Er ekki ástæða til að allir bændur fái þessa umbun, ekki bara sumir sem fá að kaupa ríkisjarðirnar?

Í ljósi ábendinga Ríkisendurskoðunar frá 14. desember spyr ég hæstv. ráðherra:

Eru áform um að breyta lögum í framhaldi af áliti Ríkisendurskoðunar eða þá reglum um að taka tillit til annarra nytja en hefðbundins landbúnaðar við matið eða skoða mismununina sem snýr að bændum með kvóta eins og þeim sem ég nefndi í dæminu áðan, þ.e. um bóndann sem tapar kvótanum við að fá ekki að kaupa jörðina og bóndann sem fær að kaupa og öðlast réttinn á kvótanum og getur selt hann háu verði?