Jarðalög

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:48:46 (7590)

2002-04-17 11:48:46# 127. lþ. 119.7 fundur 429. mál: #A jarðalög# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:48]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil segja í upphafi þessa máls að mér hefur alltaf leiðst að eiga viðræður við hv. þm. um jarðamál því að vanþekkingin liggur algjörlega fyrir og dylgjurnar koma fram í hverri einustu ræðu.

Hér leyfði hv. þm. sér á nýjan leik að taka upp Kaldbaksmálið sem hún hafði gert áður með miklum aðdróttunum bæði að þeim sem hér stendur og fjölskyldu bóndans sem átti kaupréttinn og keypti. Ég get lýst því enn einu sinni yfir að bóndinn sem keypti þessa jörð eins og hv. þm. segir á 4 millj., selur hana aftur á rúmar 20, átti allar eignir sjálfur persónulega á jörðinni, þ.e. hann og hans fjölskylda, þar á meðal íbúðarhús byggt 1974 sem hefði sennilega verið selt á 20 millj. í Reykjavík o.s.frv. þannig að hann var ekki að fá meira en hann hafði lagt í jörðina og það var hans ævistarf.

Það er erfitt að tala við hv. þm. sem alltaf er með dylgjur og kemur núna með nafnlausa jörð inn í umræðuna þannig að ég get ekki rætt það mál. Það eru dylgjur enn og aftur. Þetta eru ekki góð vinnubrögð, hæstv. forseti.

Svo vil svo segja um hitt atriðið sem hv. þm. spyr um og hafði sett inn í sína fyrirspurn hvað varðar áform um að endurskoða jarðalögin, þá hefur það legið fyrir og hefur um langa hríð verið unnið að gerð frv. til nýrra jarðalaga og ábúðarlaga sem fela í sér heildarendurskoðun á núgildandi jarðalögum, nr. 65/1976, og ábúðarlögum, nr. 64/1976, með síðari breytingum. Frumvörpin eru nánast fullunnin og hafa verið send til umsagnar hjá ýmsum aðilum. Umsagnir um þau hafa borist ráðuneytinu. Ég hef hins vegar ákveðið að leggja þessi frv. fram á haustþingi þannig að þessi frv. um jarðamálin verði mín fyrstu frv. á haustþingi. Því miður hefur þessi vinna staðið lengur en ég sjálfur vildi. Þetta er vandasamt verk eins og hv. þm. veit og þessi frv. munu líta dagsins ljós í haust. Það er ekki gert af því að Ríkisendurskoðun hafi bent á þessi atriði. Þessi mál eru því miður búin að vera lengur í endurskoðun en ég sjálfur vildi og hafa reynst flóknari í meðferð en menn gerðu sér grein fyrir. Þetta hefur því miður tafist. En þau munu koma í haust.

Ég vil svo enn og aftur segja um jarðakaupin að ríkisendurskoðandi sem hér er vitnað til hefur farið yfir þessi mál og gefur þeim sem hér stendur í ráðherratíð hans nánast heilbrigðisvottorð um að unnið hafi verið eftir settum reglum og vandlega unnið að þeim málum. Mér finnst því ástæðulaust, hæstv. forseti, að sitja undir eilífum dylgjum frá hv. þm. sem virðist þekkja mjög lítið til þessa málaflokks.