Endurskoðun jarðalaga

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:01:41 (7596)

2002-04-17 12:01:41# 127. lþ. 119.8 fundur 561. mál: #A endurskoðun jarðalaga# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:01]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í máli mínu áðan er unnið að heildarendurskoðun á núgildandi jarðalögum og ábúðarlögum með síðari breytingum og eru frv. nánast tilbúin og munu koma inn á haustþing til umfjöllunar Alþingis.

Með frv. er stefnt að því að færa löggjöf um jarðir á Íslandi í nútímalegra horf í ljósi þeirra miklu breytinga sem hafa átt sér stað í landbúnaði og í þjóðfélaginu í heild frá þeim tíma þegar núgildandi lög voru sett. Gert er ráð fyrir að frv. standist að öllu leyti ákvæði stjórnarskrár enda ber svo að vera.

Um ræðu hv. þm. vil ég segja að auðvitað eiga menn rétt sinn ef ég veit rétt þegar kemur til uppgjörs. Menn geta auðvitað krafist þess að fá hlutlausan aðila í svona mál og þá skipar sýslumaður oft dóm. Það er skipuð matsnefnd og þá held ég að sá sem gerir kröfu um slík uppskipti eigi enn mann og hinn aðilinn annan og sýslumaður skipi oddamann þannig að það er ákveðið ferli til í dag sem er til staðar lögum samkvæmt.

Það er mjög mikilvægt að endurskoða þessi lög og ég treysti því að Alþingi muni taka frv. vel í haust þegar þau koma. Ég hefði gjarnan viljað fá þau miklu fyrr fram en þau hafa tafist á þessari leið en ég vona að það verði ekki lengur og málið líti dagsins ljós í haust.