Aðgerðir í skattamálum til styrktar landsbyggðinni

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:13:15 (7600)

2002-04-17 12:13:15# 127. lþ. 119.9 fundur 518. mál: #A aðgerðir í skattamálum til styrktar landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:13]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég skil mætavel áhyggjur hv. fyrirspyrjanda varðandi þá byggðaþróun sem hefur verið hér í landinu á undanförnum árum. Til að bregðast við henni hefur ríkisstjórnin starfað eftir sérstakri byggðaáætlun og nú er ný útgáfa af henni til meðferðar á hinu háa Alþingi þar sem koma við sögu ýmsar aðgerðir og hugmyndir um hvernig bregðast megi við þeim vanda.

Ég tel hins vegar að ekki sé ráðlegt að beita skattalöggjöfinni sérstaklega í því skyni og þá er ég að tala almennt. Ég tel ekki að það sé ráðlegt að vera með almennt talað lægri skatta úti á landi en í Reykjavík. Ég tel að það standist ekki jafnræðissjónarmið og sé þar að auki mjög erfitt í framkvæmd ef byggja á á skráðri búsetu manna, skráðri búsetu fyrirtækja o.s.frv. í þeim málefnum. Ég tel heldur ekki að það gæti gengið að vera með mismunandi persónuafslátt einstaklinga eftir því hvar þeir eru skráðir til heimilis í landinu. Ég held að fara verði mjög varlega í allar aðgerðir af þessu tagi hvort sem þær eiga við um tekjuskatt fyrirtækja, eintaklinga eða tryggingagjald og tel almennt að óæskilegt sé að hugsa sér slíkar breytingar.

Þetta er svarið, hv. þm., við spurningunni af minni hálfu.

Þingmaðurinn nefndi tryggingagjaldið. Það er þess eðlis að mínum dómi að það ber að haga því þannig að það sé sama prósenta hvar sem er í landinu svo ég nefni dæmi. Ég er sem sagt andvígur því að fara þá leið sem er verið að gefa undir fótinn með í þessari spurningu.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því sem ríkisstjórnin hefur verið að gera í þessum efnum til hagsbóta m.a. fyrir fyrirtæki, byggðarlög og almenning út um land sem eru almennar skattalækkanir eins og við beittum okkur fyrir fyrr á þessu þingi þegar skatthlutfall fyrirtækja var lækkað úr 30% niður í 18%. Ég held að það sé virkileg innspýting í atvinnureksturinn og þar með mannlíf og þjóðfélag alls staðar í landinu og ekki síður úti á landi en í Reykjavík. Á þeim grundvelli vil ég vinna þau mál áfram til hagsbóta fyrir byggðarlögin vítt og breitt um landið en ég vara eindregið við hugmyndum um að bjóða fólki þar upp á lægra skatthlutfall en er annars staðar eða einhver afbrigði af slíkum hugmyndum.