Aðgerðir í skattamálum til styrktar landsbyggðinni

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:17:48 (7602)

2002-04-17 12:17:48# 127. lþ. 119.9 fundur 518. mál: #A aðgerðir í skattamálum til styrktar landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., KHG
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:17]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég er á þeirri skoðun að það eigi að beita úrræðum í skattkerfi til að ná fram markmiðum í stefnu af þessu tagi sem fyrirspurnin lýtur að og menn eigi ekki að vera kaþólskari en páfinn í því að hafna þeim úrræðum fremur en öðrum.

Ég bendi á að kynntar voru á Alþingi tillögur nefndar með stuðningi allra þingflokka sem gera ráð fyrir mismunandi endurgreiðslu námslána eftir búsetu. Ég bendi líka á að í dag er atvinnugreinabundin mismunun sem ekki er talin stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar og á ég þar við sjómannaafsláttinn sem vegna eðlis atvinnugreinarinnar og dreifingar hennar kemur fyrst og fremst út sem landsbyggðartengdur afsláttur.

Við getum beitt fleiri úrræðum, herra forseti. Ég tel t.d. afar einfalt að beita þeim úrræðum að styrkja fjárhag fámennra sveitarfélaga sem standa fjarri stórum atvinnusvæðum með því að þau fái stærri hluta af staðgreiðslu til sín og að ríkið gefi eftir hluta af sínum hlut.