Aðgerðir í skattamálum til styrktar landsbyggðinni

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:22:41 (7605)

2002-04-17 12:22:41# 127. lþ. 119.9 fundur 518. mál: #A aðgerðir í skattamálum til styrktar landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:22]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Í sambandi við þetta síðasta atriði vil ég rifja upp að ríkisstjórnin gaf verkalýðshreyfingunni ákveðin fyrirheit um breytingar á tryggingagjaldinu færi svo að þau markmið næðust í verðlagsmálum í maímánuði sem kennd eru við rauð strik. Margt bendir til að þau markmið muni nást og þá munum við að sjálfsögðu standa við okkar hluta að því er varðar tryggingagjaldið og gera ráðstafanir með tilliti til lagabreytinga næsta haust. Ég vildi bara rifja upp að þetta liggur fyrir af okkar hálfu.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði um lagalegu hliðina á þessu máli og hvort lögfræðingar hefðu rannsakað með fullnægjandi hætti hvort ákvæði sem þessi stæðust stjórnarskrá. Nú skal ég ekki segja hvort um það hefur verið skrifuð einhver ritgerð eða þess háttar en þeir lögfræðingar sem ég hef persónulega rætt þetta við eru þessarar skoðunar. Vera má þó að það væri gott innlegg í þessa umræðu í þinginu að slíkt lögfræðiálit lægi fyrir þannig að menn þyrftu ekki alltaf að vera að tala um þetta án þess að hafa fastara land undir fótum. Ég tel hins vegar að það sé a.m.k. mikið álitamál að þetta geti gengið upp.

Ég vil annars almennt, hv. fyrirspyrjandi, gjarnan ívilna atvinnurekstrinum úti um land en ég vil gera það um leið og við ívilnum atvinnurekstrinum á höfuðborgarsvæðinu. Ég bendi t.d. á að ein aðgerð sem við gerðum í skattapakkanum fyrir jólin var að gera mönnum kleift að breyta einstaklingsrekstri sínum yfir í einkahlutafélög og brjótast þannig út úr ákveðnum viðjum sem menn hafa, margir hverjir í smærri atvinnurekstri, verið fastir í, ekki síst úti á landi, og getað sig hvergi hreyft vegna aðstæðna. Nú erum við búin að gera mönnum það kleift að breyta umhverfi sínu án þess að vera refsað óhóflega í skattalegu tilliti fyrir slíka formbreytingu eina. Ég er viss um að þetta er til góðs fyrir atvinnureksturinn úti á landi og með ýmsum slíkum aðgerðum er hægt að koma virkilega til móts við menn þar.