Verðlagsmál

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:41:44 (7608)

2002-04-17 12:41:44# 127. lþ. 119.95 fundur 508#B verðlagsmál# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:41]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég gerði mér ekki grein fyrir því þegar boðað var til þessarar umræðu að hún væri aðallega til þess að setja plástra á sært stolt og særðan metnað hæstv. forsrh. Það hefur komið fram hér að auðvitað klúðraði hæstv. forsrh. gengi krónunnar, það er hann sem með óforsjálni sinni hefur veikt gengi krónunnar sem leiddi til þess að viðskiptahallinn sprakk eins og tímasprengja, sprengdi gengið sem leiddi aftur til þess að hér rauk verðbólga upp. Það leiddi aftur til þess sem við búum við enn í dag og verður að leggjast við dyr hæstv. forsrh. og einskis annars, og það er vaxtastigið í landinu.

Staðan er auðvitað þannig, herra forseti, að vextir í landinu eru mörgum sinnum hærri en t.d. í evrulöndunum. Af hverju er það, herra forseti? Vegna þess að Seðlabankanum reyndist nauðsynlegt að halda við gengi krónunnar þegar þessir háu herrar í ríkisstjórninni höfðu ekki forsjálni til að bera til þess að grípa í taumana þegar þenslan fór úr böndum. Herra forseti. Það er ástæðan fyrir því að leggja þurfti í allan þennan leiðangur.

Hæstv. forsrh. rifjar hér upp orð mín fyrir þremur mánuðum. Ég leyfi mér að rifja upp orð mín líka, herra forseti. Ég sagði að ekki mundi takast að halda verðbólgunni í skefjum, ná þessum rauðu strikum, nema menn réðust í aðgerðir. Það var nákvæmlega það sem hæstv. forsrh. gerði, ekki fyrir orð mín heldur orð verkalýðshreyfingarinnar. Og það var táknrænt að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson talaði um tilraun tveggja aðila, þ.e. atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar, en hann nefndi ekki hæstv. ríkisstjórn vegna þess að það var forusta verkalýðshreyfingarinnar sem dró hæstv. ríkisstjórn á stertinum til þessara aðgerða. Það er fyrst og fremst forustu verkalýðshreyfingarinnar sem ber að þakka þetta. Hún fór á skaflajárnum um allt samfélagið og henni ber að þakka þennan árangur en ekki þeim manni sem stendur hérna eins og særður lítill drengur og hrósar sér af því að tekist hafi að vinna aftur það sem hann með mistökum sínum leiddi yfir þjóðina.