Verðlagsmál

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:50:37 (7612)

2002-04-17 12:50:37# 127. lþ. 119.95 fundur 508#B verðlagsmál# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:50]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Mig minnir að það hafi verið fyrir u.þ.b. ári, í apríl í fyrra, að formenn tveggja stærstu stjórnarandstöðuflokkanna gengu fram fyrir skjöldu sama daginn í Morgunblaðinu og lýstu því yfir að nú væri brotlending fram undan í íslenskum efnahagsmálum, brotlending. Annað hefur komið á daginn. Nú er búið að ná tökum á þeirri þróun með mjög afgerandi hætti, þ.e. á efnahagsþróuninni. Viðskiptahallinn er á hraðri niðurleið, verðbólgan er á hraðri niðurleið, gengið er að styrkjast dag frá degi, ríkisfjármálin eru í mjög traustu horfi og þannig mætti lengi telja. Að vísu verður smáhlé á hinum mikla hagvexti sem verið hefur á undanförnum árum og hann verður minni eða kannski enginn á þessu ári og margir hafa kannski gott af því að kasta mæðinni í því ástandi. En við munum síðan stefna áfram upp á við í þeim efnum, m.a. með þeim áformum sem fram undan eru á sviði virkjanamála og ýmissa nýjunga í atvinnumálum á Íslandi. Þetta er með öðrum orðum það sem ég hef leyft mér að kalla snertilendingu. Við lendum og hefjum okkur síðan aftur til flugs að því er varðar hagvöxtinn og auknar þjóðartekjur.

En það eru ekki bara forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar sem halda þessu fram. Í gær kom út álit frá bandaríska matsfyrirtækinu Moody's á lánshæfi Íslands þar sem staðfest er mjög gott og traust lánshæfi Íslands og hin háa einkunn sem skuldbindingar íslenska ríkisins hafa eru staðfestar og útlit talið vera stöðugt sem þýðir að ekki eru horfur á því að þetta góða lánshæfismat rýrni.

Við erum samt ekki eina þjóðin sem höfum verið að gangast undir mat hjá öðrum, þ.e. lánshæfisfyrirtækjunum. Í fyrradag lækkaði annað lánshæfisfyrirtæki mat sitt á stórveldinu Japan vegna ástandsins sem þar er í þeim málum. Það er því ekki sjálfgefið að ríki haldi lánshæfismati sínu eins og sem betur fer er raunin hjá okkur.